Vinnslustöðin hf. (VSV) er útgerðar- og fiskvinnslufyrirtæki með höfuðstöðvar í Vestmannaeyjum.
Hjá Vinnslustöðinni og dótturfyrirtækjum starfa 4-500 starfsmenn í störfum tengdum sjávarútvegi, s.s. sjómenn, fiskvinnslufólk, tækni- og iðnaðarmenn ásamt sölu- og markaðsfólki og stjórnendum.
Síðan 1946 hefur Vinnslustöðin tekist á við storma og stórviðri, eins og kröftug náttúra Vestmannaeyja er þekkt fyrir, en jafnframt góða kafla á milli. Hafstraumar og hitaskil sjávar staðsetja okkur í miðju gjöfulustu fiskimiða Íslendinga þar sem stutt er að sækja fiskinn.
Við veiðum, vinnum og markaðssetjum hágæða íslenskan fisk á erlendum mörkuðum. En það er ekki nóg að hafa fiskinn og náttúruna, við þurfum líka sjómenn sem geta staðið af sér storma og stórviðri við suðurströndina auk starfsfólks í landi og starfsfólk sem stendur vaktina á erlendum mörkuðum. Allt þetta er samofið svo unnt sé að bjóða neytendum, hvar sem er í heiminum, hágæða afurðir úr íslenskum fiski með góðum rekjanleika.
Við leggjum mikla áherslu á sjálfbærni veiða því einungis þannig sjáum við fyrir okkur að Vinnslustöðin verði sjálfbært félag sem leggur samfélaginu gott til.
Sagan
Vinnslustöðin hf. var stofnuð 30. desember 1946.
Skömmu fyrir stofnun félagsins komu þrír útgerðarmenn saman og báru upp tillögu á aðalfundi Lifrarsamlags Vestmannaeyja um að skoðað yrði að fullvinna fiskafurðir félagsmanna. Tillagan hlaut góðar undirtektir og strax í kjölfarið stofnuðu 105 útgerðarmenn í Eyjum Vinnslu og sölumiðstöð fiskframleiðenda í Vestmannaeyjum (VSV) sem síðar fékk nafnið Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum.
Allar götur síðan hefur hefur saga félagsins verið samofin sögu Vestmannaeyja. Stofnendurnir voru staðráðnir í að bæta eigin hag og um leið hag samfélagsins. Traust er mikilvægur þáttur mannlegs samfélags og allt frá stofnun hafa Eyjamenn mátt treysta því að eigendur og starfsfólk legðu sig alla fram við að byggja upp undirstöður Eyjanna. Það var því ekki að undra að eigendur VSV og FIVE (fiskimjölsbræðslunnar), neituðu að yfirgefa Vestmannaeyjar þegar gos hófst í Heimaey árið 1973, heldur ræstu loðnubræðsluna í miðju gosi og neituðu að rífa niður fiskvinnsluvélar félagsins og flytja þær til Reykjavíkur. Þeir sýndu kjark og áræðni sem þarf við erfiðar aðstæður. Þeir neituðu að gefast upp og börðust fyrir framtíð atvinnurekstrar í Eyjum og lögðu þannig grunnin að því sem við erum í dag.
Nú, 50 árum síðar, stöndum við í mikilli þakkarskuld við allt það fólk sem lagði hönd á plóg við endurbyggingu Eyjanna eftir þá miklu erfiðleika sem urðu í gosinu og í kjölfar þess.
Í dag höfum við endurbyggt vinnslur félagsins að verulegu leyti sem og skipaflota. Markmið okkar eru skýr. Þau eru að byggja áfram á því góða verki sem unnið hefur verið innan VSV, nútímavæða fyrirtækið og nýta nýjustu tækni til að bjóða viðskipavinum okkar ósnortinn íslenskan fisk af enn meiri gæðum en verið hefur.
Sjötug og síung
Á sjötugsafmæli Vinnslustöðvarinnar var gefin út bók um sögu okkar árin 1946 - 2016.
Hér að neðan getur þú sótt þér eintak í PDF-formi.