Grupeixe er portúgalskt fyrirtæki, staðsett í Gafanha da Nazaré. Félagið þurrkar blautverkaðan saltfisk á hefðbundinn portúgalskan hátt, selur og dreifir um allt Portúgal. Við ábyrgjumst að portúgalskir neytendur fái sinn hefðbundna og mikilvæga þjóðarrétt, bacalhau.
Vinnslustöðin hefur saltað vertíðarþorsk í tæp 80 ár, aðallega fyrir Portúgalsmarkað. Grupeixe, sem er í 95% eigu Vinnslustöðvarinnar, hefur aukið mjög söltun þorsks á undanförnum árum. Saman erum við leiðandi á portúgölskum markaði við sölu og markaðssetningu saltfisks.
Grupeixe selur og dreifir saltfiski til veitingahúsa, heildsala, dreifenda og verslanakeðja. Grupeixe er stærsti seljandi íslensks saltfisks á Portúgalsmarkaði.
Saltfiskur, eða bacalhau, er þjóðarréttur Portúgala. Þeir elska að elda saltfisk og gera það gjarnan í fjölskylduboðum, brúðkaupum, á jólunum eða öðrum tyllidögum. Portúgalar eiga yfir 1.000 mismunandi uppskriftir að saltfiski. Mesta neysla saltfisks er á aðfangadag jóla en þá er áætlað að Portúgalar borði um 4-5.000 tonn af þurrkuðum saltfiski sem jafngildir um 10-12.000 tonnum af þorski upp úr sjó. Það eru því augljósar ástæður fyrir því að Portúgalar eru kröfuharðir neytendur saltfisks og elska hann.
Íslenskur þorskur, Portúgölsk hefð
Þar sem þorskur veiðist varla við strendur Portúgals þá þarf að flytja fiskinn inn. Þar kemur Vinnslustöðin og Ísland til sögunnar. Við notum nútímatækni við veiðar, vinnslu og geymslu fisksins til að færa Portúgölum hefðbundinn jólamat frá Grupeixe.