Yndisleg tilfinning eftir loðnubömmerinn!
„Fiskurinn er þokkalegur en í honum er nokkur áta. Annars get ég varla lýst því hve notaleg tilfinning það er að hefja makrílvertíðina og sjá allt fara í gang eftir loðnubömmerinn!“ segir Benoný Þórisson, framleiðslustjóri uppsjávarsviðs Vinnslustöðvarinnar, á fyrsta vinnsludegi makríls og leynir hvergi kæti sinni.
Huginn VE-55 kom með fyrsta makrílfarminn til Vestmannaeyja snemma í morgun, um 220 tonn sem dregin voru úr sjó sunnan við Eyjar. Bræla gerði áhöfninni lífið leitt framan af eftir að haldið var úr höfn til veiða á föstudaginn var.
Loðnubresturinn var að sjálfsögðu skarð í gleðina samfélaginu í Vestmannaeyjum í vetur og þjóðfélaginu yfirleitt. Það tekur sig því eðlilega upp bros víða við upphaf makrílvertíðar.
Kap VE fór til veiða í dag og ætla má að skipið færi næsta farm að landi í Eyjum þegar þar að kemur.