Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Screenshot 2022 11 01 At 164754 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Vinnslustöðin hefur stofnað dótturfélagið VSV Finland Oy og ráðið til þess finnskt starfsfólk sem aflað hefur sér reynslu og þekkingar á innflutningi á eldislaxi og markaðssetningu, sölu og dreifingu laxins í Finnlandi og í Eystrasaltsríkjunum.

VSV Finland Oy er með bækistöð í Helsinki (sbr. meðfylgjandi mynd) og hefur þegar tekið starfa. Framkvæmdastjóri er Mika Jaaskelainen, áður framkvæmdastjóri Kalatukku E. Eriksson, sölufyrirtækis sjávarafurða í Finnlandi.

Meginverkefni VSV Finland verður að flytja inn fisk og sjávarfang frá Íslandi og öðrum norrænum ríkjum til sölu og dreifingar í Finnlandi og á öðrum mörkuðum í Evrópu.

 

– Að gefnu tilefni, Sigurgeir B. Kristgeirsson framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar: Tvennt hlýtur að vekja athygli í þessari frétt um finnska dótturfélagið, annars vegar það að starfsmenn ykkar í Helsinki eru sjóaðir í sölu á eldislaxi og hins vegar að þarna er líka talað um dreifingu/flutninga á afurðum.

Er Vinnslustöðin að fara að inn á nýjar brautir í starfsemi sinni með dótturfélaginu í Finnlandi?

„Að nokkru leyti, já. Undirverktakar sjá vissulega um flutningastarfsemina en hvað eldislaxinn varðar þá hefur Vinnslustöðin hvorki komið nálægt laxi né laxaafurðum fyrr en nú. Þarna kom einfaldlega spennandi tækifæri upp í hendurnar á okkur og meðbyrinn er framar vonum strax í upphafi.

Þetta snýst auðvitað um viðskipti með lax en ekki að Vinnslustöðin sjálf sé á leið í laxeldi. Starfsmenn VSV Finland Oy koma til okkar með viðskiptasambönd sem felast í því að kaupa eldislax í Noregi og selja í Finnlandi og Eystrasaltsríkjunum. Þarna eru vissulega nýir snertifletir sem okkur þykir mjög áhugavert að vinna með og augljóslegar eru miklir möguleikar í laxeldinu, atvinnugrein sem er alls staðar í mikilli sókn og örum vexti.

Sérlega ánægjulegt og áhugavert er svo það að við finnum fyrir miklum áhuga í Finnlandi fyrir samstarfi við að kaupa og selja fisk. Það þykir mikill fengur að því að fá öflugt íslenskt sjávarútvegsfyrirtæki inn á finnskan markað með þessum hætti.

Dótturfélagið okkar hefur einungis verið starfrækt í fáeina daga en samt hafa margir haft samband. Greinilegt er að það hefur farið víða að við værum að stofna til þessa félags með þekktu og reynsluríku fólki í viðskiptum með fisk og fiskafurðir. Óvenjulegt er að hefja starfsemi á nýju markaðssvæði og fá svona sterk viðbrögð þegar í stað.“