Vinnslustöðvarminningar gúanómálarans Hönnu Kr.
Bubbi Morthens mótaði gúanórokkið sem farandverkamaður í fiskvinnslu á sínum tíma, meðal annars í Vinnslustöðinni.
Hanna Kristín Hallgrímsdóttir sækir á svipuð áhrifamið í röð mynda sem hún teiknaði og málaði eftir að hafa búið í Eyjum og unnið í Vinnslustöðinni. Þau Bubbi voru meira að segja samtíða eina vertíð hér og bjuggu í verbúð Vinnslustöðvarinnar. Er hún þá ekki réttilega útnefnd frumkvöðull í gúanómyndlist?
„Ég kom til Vestmannaeyja 1975, fór að vinna í Vinnslustöðinni og var þar þangað til ég flutti til Reykjavíkur 1979. Ég kynntist manninum mínum, Þresti Jenssyni, í Vinnslustöðinni. Hann er úr Borgarfirði en kom til Eyja í atvinnuleit eins og ég. Þröstur vann til að byrja með í Vinnslustöðinni, var í skamman tíma í hjá Ísfélaginu en lengst af í löndunargengi Samtogs.“
Í leikmyndagerð hjá Hugleik
Hanna fékk inni í Myndlista- og handíðaskóla Íslands og það var meginástæða búferlaflutninga suður. Í framhaldinu vann hún á auglýsingastofu, síðar hjá Fjölprenti en lengst hjá Póstinum eða í nítján ár.
Hún reyndi aldrei að lifa af myndlist og segist reyndar ekki skilja hvernig það sé yfirleitt hægt með góðu móti! Um skeið vann hún að leikmyndagerð hjá áhugamannaleikfélaginu Hugleik og hefur sýnt myndverk sín opinberlega, til að mynda á æskuslóðum á Dalvík vorið 1987.
Hanna gaf góðfúslega leyfi fyrir því að VSV birti á vef sínum myndir og teikningar sem flestar eru „gerðar eftir minni“ í Reykjavík eftir að hún flutti suður. Þannig birtast minningarnar um Vinnslustöðina og lífið þar eins og Hanna man þær og varðveitir.
Trega ég Þjóðhátíð
Í tilefni af því að verslunarmannahelgin brestur á um þessar mundir fær hér líka að fljóta með teikning tileinkuð Þjóðhátíð Vestmannaeyja árið 1983. Týsmerkið er ofan við hátíðarsviðið þar sem stendur syngjandi mannvera með hljóðnema. Hanna telur að það hljóti að vera sjálfur Hallbjörn Hjartarson. Kúrekinn frá Skagaströnd skemmti nefnilega í Herjólfsdal það árið.
Hanna og Þröstur fóru alls 38 sinnum á Þjóðhátíð í Eyjum, hvorki meira né minna! Þá staðreynd orðar hún ljóðrænt:
Á þrjátíu og átta Þjóðhátíðum, þar var gaman.
Dönsuðum í Dalnum saman,
drukkum vín svo glöð í framan.
Þegar kom að því seint og um síðir að Hanna sat heima og sleppti Eyjaferð um verslunarmannahelgi orðaði hún líðan sína svona:
Man ég þá minningu skæra,
muna vil alla tíð.
Tregt er mér tungu að hræra,
trega ég Þjóðhátíð.
Nú í ár geta þúsundir tekið sér þessar ljóðlínur í munn en það er önnur (COVID)-saga.
Baráttusystir Stellu Hauks í Snót
„Tíðarandinn speglast í myndunum frá árunum í Vinnslustöðinni. Þetta var fyrir tíma flæðilínunnar og ýmislegt fleira er örugglega framandi þeim sem starfa þarna núna.
Margir eftirminnilegir unnu með mér þarna. Stebbi Run. var framkvæmdastjóri og verkstjórar voru Ingi Júlíusson, Jóhann Jónsson frá Laufási og Haukur Guðmundsson, pabbi Stellu Hauks, trúbadors og baráttukonu í verkalýðshreyfingunni og Rauðsokkahreyfingunni. Við Stella vorum báðar á fullu í Verkakvennafélaginu Snót í Eyjum.
Svo man ég eftir ljúfum karli í móttökunni, Guðmundi Ásmundssyni. Gleymum ekki Lása stálara. Ég stálaði mikið með honum, færeyskum karli sem Nikulás hét. Ein teikningin er tileinkuð Lása. Sú mynd gæti þess vegna heitið Stál og hnífur ...
Við Þröstur höfum ekki komið til Vestmannaeyja í nokkur ár en þekkjum þar marga. Alltaf eru fagnaðarfundir þegar við rekumst einhvers staðar á fólk sem við kynntumst eða unnum með í Eyjum.
Ekki læt ég hjá ekki hjá líða að nefna ættartengingu við Vestmannaeyjar og hampa henni mjög. Einar Björn Árnason, sjálfur meistarakokkurinn Einsi kaldi, er bróðursonur minn. Hann er listamaður á sínu sviði.
Eyjarnar hafa alltaf togað sterkt í okkur og þannig verður það áfram. Perla dóttir okkar á þar raunverulegar rætur. Hún fæddist í Vestmannaeyjum.“
- Fyrsta teikningin hér fyrir neðan er úr Herjólfsdal 1983. Á eftir fylgja myndir Hönnu úr Vinnslustöðinni. Undir lokin birtast Lási stálari við störf sín og svo Hanna sjálf með svuntu sem hún málaði á mynd af fiskverkakonu við störf. Svipað mótíf er á teikningunni sem rekur lestina.