Vinnslustöðin skilaði metafkomu 2023 en loðnubrestur í ár er skarð í gleðina
Afkoma Vinnslustöðvarinnar á árinu 2023 var betri en dæmi eru um áður í sögu fyrirtækisins og verður að miklu leyti rakin til uppsjávarveiðanna. Loðnuvertíðin í fyrra var sú gjöfulasta í verðmætum talið frá upphafi vega og verð á mjöli og lýsi var hátt á mörkuðum allt árið 2023. Afkoman á fyrstu mánuðum liðins rekstrarárs lofaði því góðu um árið allt þegar það yrði gert upp, sem og kom á daginn.
Rekstur félagsins gekk vel 2023 þegar á heildina er litið með þeim undantekningum þó að það gætti sölutregðu frosinna botnfiskafurða og tilheyrandi verðlækkunar á mörkuðum í Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi.
Metvertíð loðnu í fyrra fylgir loðnuleysisár nú með þeim afleiðingum sem slíkt hefur fyrir sjávarútveginn, byggðarlögin þar sem uppsjávarveiðar eru stoðir í atvinnulífi og fyrir sjálft þjóðarbúið.
Loðnubresturinn nú er til vitnis um hve sveiflukennd atvinnugrein sjávarútvegur er og mikilli óvissu háður um skilyrði og takmörk sem móðir náttúra setur starfsemi hans á hverjum tíma.
Þetta kom fram á ársfundi Vinnslustöðvarinnar í gær, 4. apríl.
· Vinnslustöðin gerir upp í evrum. Velta samstæðu hennar nam jafnvirði um 35 milljarða króna á árinu 2023.
· Hagnaður VSV-samstæðunnar nam jafnvirði um 4,5 milljarða króna.
· Aðalfundurinn samþykkti að hluthafar fái greiddar jafnvirði um 900 milljóna króna í arð vegna ársins 2023 en stjórn félagsins er jafnframt heimilað að lækka þá fjárhæð eða hætta við að greiða út arðinn ef aðstæður breytast þegar líður á árið.
Kaupin á Ósi og Leo Seafood
Langstærsta fjárfesting Vinnslustöðvarinnar á árinu 2023 var kaup á útvegs- og fiskvinnslufyrirtækjunum Ósi ehf. og Leo Seafood ehf. af Sigurjóni Óskarssyni útgerðarmanni og fjölskyldu hans í Vestmannaeyjum. Vinnslustöðin tók formlega við útgerð Þórunnar Sveinsdóttur VE og rekstri Leo Seafood á sumardeginum fyrsta í fyrra.
Við kaup félaganna tveggja stækkaði efnahagur VSV-samstæðunnar um liðlega 40% og stöðugildum samstæðunnar fjölgaði um 90.
Nú eru stöðugildi í Vinnslustöðinni alls 460, þar af 400 á Íslandi og 60 erlendis.
Byggingaframkvæmdir og skipasmíðar
Hafnar eru umfangsmiklar byggingaframkvæmdir á lóð Vinnslustöðvarinnar og gert ráð fyrir að þeim ljúki á árinu 2025. Gömul og úrelt hús voru rifin og í staðinn rís tveggja hæða steinhús á tveimur hæðum, alls um 5.600 fermetrar, sem í verður saltfiskvinnsla á neðri hæð og á efri hæð innvigtun uppsjávarafla, flokkun og flökun sem uppfyllir allar kröfur reglugerðar þar að lútandi.
Vinnubúðir hafa verið settar upp í grenndinni handa aðkomnum iðnaðarmönnum og öðrum sem starfa munu við framkvæmdirnar.
T.ark arkitektar hanna bygginguna en Eykt ehf. er aðalverktaki.
Þá kom fram á aðalfundinum að Vinnslustöðin muni bjóða út smíði tveggja skipa til að leysa af hólmi Kap og Drangavík. Þau eru hönnuð með orkusparnað í huga.
Kröfum bæjarstjórnar vegna vatnslagnar svarað
Guðmundur Örn Gunnarsson, formaður stjórnar Vinnslustöðvarinnar, vék í skýrslu stjórnar að óhappi sem átti sér stað í nóvember 2023 þegar eitt skipa félagsins, Huginn VE, olli tjóni á vatnsleiðslunni milli meginlands og Eyja. Hann sagði eftirfarandi um málið:
Þetta var óhapp hafði afleiðingar sem eigendur og stjórnendur Vinnslustöðvarinnar tóku nærri sér og lögðu sig eftir að draga úr skaðanum að svo miklu leyti sem þeim var unnt miðað við aðstæður.
Vinnslustöðin og öll fyrirtæki innan samstæðunnar eru að sjálfsögðu tryggð gagnvart tjóni af ýmsu tagi í starfsemi sinni. Vátryggingabætur eru greiddar samkvæmt gildandi skilmálum, lögum og alþjóðlegum samningum.
Tryggingafélag Vinnslustöðvarinnar, VÍS, hefur viðurkennt bótaskyldu vegna vatnsleiðslunnar að tilteknu hámarki samkvæmt siglingalögum. Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkti á dögunum að „sækja frekari bótagreiðslur til útgerðarinnar til að tryggja skaðleysi íbúa Vestmannaeyjabæjar vegna tjónsins“, eins og það er orðað.
Vinnslustöðin svaraði fyrir sína hönd og fellst ekki á erindið enda eru slíkar „umframbætur“ án fordæma að því er við best vitum og engan veginn í samræmi við þau lög og alþjóðasamninga sem um slík tjón gilda.
Vinnslustöðin hefur kappkostað að hafa vátryggingavernd sem uppfyllir allar kröfur sem eðlilegar geti talist. Okkur þykir miður ef tjónabæturnar duga ekki til að bæta tjónið að fullu en endanlegt mat tjónsins liggur ekki fyrir.
Ef eigendur vatnsleiðslunnar hefðu vátryggt vatnsleiðsluna myndi sú vátrygging bæta það tjón umfram hið lögbundna hámark ef tjónið væri hærra.
Myndaalbúm
Glaðlegir hluthafar og fleiri fagna fínu uppgjöri enda rík ástæða til!