Vinnslustöðin kaupir Útgerðarfélagið Glófaxa ehf.
Vinnslustöðin hf. hefur eignast öll hlutabréfin í Útgerðarfélaginu Glófaxa ehf. í Vestmannaeyjum og tekur við félaginu 1. september 2017.
Kaupsamningurinn var undirritaður með venjulegum fyrirvara um fjármögnun, samþykki stjórnar VSV og samþykki Samkeppniseftirlits.
Kaupverðið er trúnaðarmál.
Útgerðarfélagið Glófaxi gerir út tvo báta, nótaskipið Glófaxa VE-300 og línu- og netabátinn Glófaxa II VE-301.
Seljendurnir, Bergvin Oddsson og fjölskylda hans, halda eftir Glófaxa II og 50 þorskígildistonnum og stunda útgerð áfram.
- Bergvin Oddsson, Hrafn Oddsson og Sævaldur Elíasson keyptu Glófaxa VE-300 á árinu 1974 og stofnuðu útgerðarfélagið Snæfell sf. um reksturinn. Bergvin keypti Hrafn og Sævald út 1986 og árið 1994 var nafni félagsins breytt í Útgerðarfélagið Glófaxi.
Með samningi sínum um kaupin á Glófaxa ehf. eykur Vinnslustöðin heildaraflamark sitt um 800 þorskígildistonn.
Seljendur Glófaxa ehf. höfðu frumkvæði að viðræðum sem lyktaði með fyrirliggjandi kaupsamningi, segir Sigurgeir B. Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar:
„Bergvin Oddsson og fjölskylda hans buðu okkur forkaupsrétt að félaginu með tilheyrandi aflaheimildum og skipi. Með því var okkur sýnt traust og trúnaður sem við erum fjölskyldunni afar þakklát fyrir.
Það er beinlínis yfirlýst stefna Vinnslustöðvarinnar að halda aflaheimildum í byggðarlaginu svo sem kostur er. Viðhorf okkar og seljendanna fara saman að þessu leyti og eru í samræmi við hagsmuni byggðarinnar og atvinnulífsins í Vestmannaeyjum.“