Fara á efnissvæði
World Map Background Image
4 Heili Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Slóveninn Crt Domnik á afar góðar minningar frá dvöl sinni á Íslandi og í Vestmannaeyjum þar sem hann starfaði í Vinnslustöðinni á árunum 2019 til 2021. Hann fjallar um kynni sín af Íslandi og íslensku samfélagi í ítarlegu viðtali á fréttavefnum Slovenske Novice í Ljubljana í Slóveníu og það á slíkum nótum að Ferðamálaráð Íslands gæti tæpast framleitt betra kynningarefni um land og þjóð fyrir erlendan markað!

„Ég man vel eftir Crt Domnik og deginum þegar hann kom til að sækja um vinnu hjá okkur,“ segir Lilja Björg Arngrímsdóttir, yfirmaður starfsmannahalds í Vinnslustöðinni.

„Crt talar fína ensku og samskiptin gengu því mjög greiðlega. Hann gaf mér upp nafn sitt og símanúmer og ég skráði nafnið samviskusamlega eftir framburði í tölvukerfi fyrirtækisins. Maðurinn heitir Crt, borið fram Cört og þannig var það skráð. Hann hafði gaman af misrituninni og kynntist því þá um leið að Íslendingar þekkja ekki að fólk beri sérhljóðalaus nöfn!“

Crt  segir í viðtalinu frá atvinnuháttum á Íslandi, náttúrufari og ýmsu í þjóðlífinu sem honum er greinilega mjög framandi. Þarna kemur Golfstraumurinn við sögu, jarðhiti og jarðvarmaorka, átök við Englendinga um fiskveiðilögsöguna og meira að segja barátta Sigríðar í Brattholti gegn áformum um að virkja vatnsaflið í Gullfossi í Hvítá í Árnessýslu.

Crt vann aðallega í saltfiski í Vinnslustöðinni og minnist þess í máli og myndum. Um skeið vann með honum landi hans frá Slóveníu, Aleksandar að nafni. Tungumálavandræðum var annars ekki fyrir að fara, allir á Íslandi skilja og tala ensku, segir'ann.

Hann nefnir ofar en einu sinni hve einfalt og skilvirkt skráningarkerfi Íslendinga sé og er sýnilega ekki vanur slíku heima hjá sér. Kennitölur Íslendinga opni þeim dyr út um allt í tölvunum sínum og þannig hafi þeir samskipti við fyrirtæki, skólakerfi, slái lán í banka eða kaupi hitt og þetta og greiði fyrir á Vefnum: „Óþarft er að ganga á milli skriffinna kerfisins til að reka slík erindi.“

Samskipti og fyrirkomulag á vinnustöðum er Crt ofarlega í huga og þar lýsir hann eigin reynslu frá Vinnslustöðinni: korterspásur á níutíu mínútna fresti eru í frásögur færandi, klukkutíma matarhlé á fullu kaupi sömuleiðis og aðstæður til að fataskipta og steypibaða á vinnustað.

Kaupið er líka fínt, 2.000 evrur á mánuði og viðbót fyrir yfirvinnu. Crt notaði þúsund evrur til eigin framfærslu á mánuði en lagði fyrir annað eins. Merkilegt finnst honum að ef hann væri Íslendingur og legði þannig reglulega fyrir í þrjú ár gæti hann fengið tífalda upphæð innistæðunnar á reikningnum að láni í bankanum og einungis tæki korter að fá lánið afgreitt! 

Íslendingum lýsir Crt sem opnum, ræðnum og vel að sér. Þeir hafi víða farið, þekki til Slóveníu og hafi fylgst með styrjöldinni á Balkanskaga. Íslensk þjóð fylgist með Evrópusöngvakeppi sjónvarpsstöðva af gríðarlegum áhuga og noti tækifærið til fagnaðarláta og drykkju.

Merkilegast af öllu þykir Slóvenanum samt að Íslendingar séu algjörlega lausir við stress og að atvinnurekendur öskri aldrei á verkafólkið sitt heldur sýni því virðingu í samskiptum Vilji atvinnurekendur vinna fram eftir óski þeir kurteislega eftir því við fólkið og móðgist ekki þótt starfsmennirnir hafni yfirvinnu.

Frí eða leyfi í vinnu eru sérlega sveigjanleg, segir Crt enn fremur. Og umgjörð vinnumarkaðarins er vel skipulögð. Kjarasamningar eru gerðir og um þá greiða allir atkvæði. Ef meirihlutinn fellir kjarasamning er viðræðum um kaup og kjör einfaldlega haldið áfram.

Ofan á allt annað veitir stéttarfélagsaðild rétt til afsláttarkjara hér og þar. Nefnd er fræðslustarfsemi, íþróttaiðkun og flugfargjöld.

  • Crt Domnik lýsir með öðrum orðum íslensku gósenlandi verkamannsins – gegnum slóvensk sjóngler.
1 1164610Max 1280X1280
2 1164608Max 1280X1280
3 1164611Max 1280X1280