Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Image Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Vinnslustöðin hf. (VSV) er framarlega í hópi framúrskarandi fyrirtækja 2016 samkvæmt mælingu Creditinfo, í 35. sæti af alls 624 fyrirtækjum sem þessa viðurkenningu hlutu við athöfn á Nordicahóteli í Reykjavík í dag. Stjórnarformaðurinn segir að eigendur, stjórnendur og starfsmenn megi sannarlega vera stoltir af árangrinum.

„Auðvitað er afar ánægjulegt fyrir VSV-fólk að fá staðfestingu á því enn einu sinni að fyrirtækið er meðal þeirra sterkustu á landinu. Margir eru kallaðir en fáir útvaldir í niðurstöðum Creditinfo varðandi styrkleika alls um 36 þúsund fyrirtækja á hlutafélagaskránni. Af öllum þessum skara standast einungis 624 fyrirtæki kröfur til að geta talist framúrskarandi og þar er Vinnslustöðin 35. sæti. Við spilum því tvímælalaust í úrvalsdeildinni!“ segir Guðmundur Örn Gunnarsson, stjórnarformaður VSV, um viðurkenningu dagsins.

„Þetta er bæði viðurkenning á því sem vel er gert og hvatning til að halda áfram á sömu braut. Við höfum fetað okkur áfram í rekstrinum markvisst, örugglega og af varfærni og fögnum árangrinum sem það skilar.

Ég vil í leiðinni óska félögum okkar hjá útgerðarfélaginu Þorbirni í Grindavík til hamingju með að hafa fengið sérstök verðlaun fyrir nýsköpun í sjávarútvegi. Þorbjörn er vel að þeirri viðurkenningu kominn og ástæða er líka til að hrósa Creditinfo fyrir að varpa ljósi á að einnig í sjávarútvegi á sér stað merkileg nýsköpunarstarfsemi.“

Myndin: Gunnar H. Egilson frá Creditinfo t.v. afhentir Guðmundi Erni Gunnarssyni, stjórnarformanni VSV, viðurkenninguna í dag.

Image

Grillmarkaður og Fálkinn verðlaunaðir sérstaklega 

Í tíu efstu sætum á lista yfir framúrskarandi fyrirtæki 2016 eru Icelandair Group, Samherji, Icelandair, Marel, Reitir fasteignafélag, Össur, HB Grandi, Síldarvinnslan, Norðurál og Eik fasteignafélag.

Veitingahúsið Grillmarkaðurinn í Reykjavík hlaut verðlaun fyrir að vera „yngsta fyrirtækið í erfiðasta atvinnuflokknum“, sem er hótel- og veitingageirinn. Í þessum flokki fyrirtækja eru hlutfallslega mest vanskil. Grillmarkaðurinn var stofnaður árið 2011.

Fálkinn hlaut verðlaun fyrir að vera „hástökkvariinn“ í hópnum, þ.e. það félag sem færði sig lengst upp stigatöfluna frá fyrra ári. Fálkinn var í eigu sömu fjölskyldu frá stofnun árið 1904 til ársbyrjunar 2015 þegar nýir eigendur tóku við rekstrinum.

Skilyrðin sjö þarf að uppfylla til að teljast framúrskarandi 

  1. Fyrirtækið sé í lánshæfisflokki 1-3.
  2. Rekstrarhagnaður (EBIT) og ársniðurstaða jákvæð þrjú ári í röð.
  3. Eiginfjárhlutfall 20% eða meira en þrjú rekstrarár í röð.
  4. Eignir hafi humið 80 milljónum króna eða meira þrjú ár í röð.
  5. Framkvæmdastjóri skráður í hlutafélagaskrá.
  6. Fyrirtækið virkt samkvæmt skilgreiningu Creditinfo.
  7. Fyrirtækið hafi skilað ársreikningi fyrir 1. september 2016.