Viðunandi rekstrarafkoma VSV á mótdrægu ári
Rekstur Vinnslustöðvarinnar hf. skilaði 800 milljóna króna rekstrarhagnaði (5,4 milljónum evra) á árinu 2020 á meðalgengi þess árs. Það er liðlega 40% minni hagnaður en á fyrra ári.
Framlegð samstæðunnar (EBITDA) nam 2,3 milljörðum króna (14,9 milljónum evra) og dróst saman um 29%.
Þetta kom fram á aðalfundi VSV í Vestmannaeyjum á fimmtudaginn var, 25. mars. Tilhögun fundarins var í samræmi við hertar sóttvarnir og samkomutakmarkanir. Einungis átta manns voru á vettvangi í Eyjum en aðrir hluthafar tóku þátt í fundarstörfum í gegnum fjarfundarbúnað.
Guðmundur Örn Gunnarsson, stjórnarformaður félagsins, orðaði það svo í skýrslu stjórnar að rekstrarafkoman 2020 væri viðunandi í ljósi aðstæðna:
„Útkoman er viss varnarsigur á tímum þegar margt var mótdrægt og óvenjulega snúið við að eiga. Markmiðið var að halda sjó og það tókst.“
Engin loðna var veidd í fyrra og humarveiðar brugðust sömuleiðis. Mest áhrif á reksturinn hafði samt veirufaraldurinn heima og heiman. Veitingahús og mötuneyti voru lengst af lokuð á hefðbundnum markaðssvæðum, atvinnuleysi jókst þar og miklar efnahagsþrengingar með fallandi kaupmætti almennings settu víða strik í reikninginn.
Mikil saltfisksala en lækkandi verð
Vinnslustöðin eignaðist saltfiskframleiðslufyrirtækið Grupeixe í Portúgal á árinu 2019. Árið 2020 var því fyrsta heila almanaksár rekstrarins. Saltfisksala VSV jókst mikið á Portúgalsmarkaði en verðið lækkaði umtalsvert sem rekja má beint til áhrifa og afleiðinga veirufaraldursins. Stjórnarformaðurinn vék að þessu í skýrslu stjórnar og sagði:
„Við fylgjum Portúgölum í niðursveiflunni og þrengingum þeirra í fullvissu um að þegar efnahagslíf þeirra nái sér á strik á ný muni samfélag þeirra hrökkva í fyrri skorður og saltfiskverðið hækka. Portúgalir gleyma því nefnilega ekki, þótt á móti blási í augnablikinu, hverjir framleiða og selja besta saltfiskinn sem þeim býðst.“
Arðgreiðslur
Aðalfundur Vinnslustöðvarinnar samþykkti að greiða hluthöfum 5 milljón evrur í arð, jafnvirði um 750 milljóna króna. Stjórn félagins var jafnframt heimilað að lækka arðinn í 3 milljón evrur þegar hann verður greiddur út í október ef aðstæður þykja kalla á slíkt.
Á súluritinu sjást arðgreiðslur sem hlutfall af markaðsvirði hlutafjár félagsins frá 2003 til 2021. Þetta hlutfall nú er 2,4%.
Óbreytt stjórn
Stjórn Vinnslustöðvarinnar var endurkjörin og varastjórn sömuleiðis.
Í aðalstjórn eru Einar Þór Sverrisson, Guðmunda Áslaug Bjarnadóttir, Guðmundur Örn Gunnarsson, Rut Haraldsdóttir og Sigurjón Rúnar Rafnsson.
Í varastjórn eru Eyjólfur Guðjónsson, Herdís Ásu Sæmundardóttir og Sigurhanna Friðþórsdóttir.
- Myndir sem með fylgja:
Efsta mynd er af fámennasta aðalfundi Vinnslustöðvarinnar frá stofnun félagsins árið 1946!
Fjærst hægra megin borðs er Sigurgeir B. Kristgeirsson framkvæmdastjóri, þá Guðmundur Örn Gunnarsson stjórnarformaður og Andrea Atladóttir fjármálastjóri. Fjærst vinstra megin er Arnar Sigurmundsson fundarstjóri, þá Haraldur Gíslason og Þór Vilhjálmsson. Þeir tveir hinir síðastnefndu fóru með umboð fjölmargra annarra hluthafa á aðalfundinum.
Á tjaldinu sjást nokkrir þeirra sem voru fjarri vettvangi. Þrátt fyrir fámennið í salnum var þátttakan með því besta sem gerst hefur þegar litið er til samanlagðs heildarhlutfalls eignarhalds hluthafa sem sóttu fundinn í eigin persónu og rafrænt eða veittu öðrum umboð sitt til aðalfundarstarfa.
Myndirnar þar fyrir neðan voru teknar daginn fyrr aðalfund. Þá mættu nokkrir hluthafar í Vinnslustöðina og skoðuðu glæsilega viðbyggingu sem tekin var í notkun á dögunum. Þar er skrifstofuhald félagsins, matsalur, búningsklefar og nýr aðalinngangur.