Viðbygging frystigeymslunnar rís
Hafist var handa nú í byrjun vikunnar við að reisa stálgrind fyrir nýjan klefa frystigeymslu Vinnslustöðvarinnar á Eiði. Pólskt fyrirtæki framleiðir húsið og reisir það. Gert er ráð fyrir að viðbyggingin verði tilbúin í sumar og nýtist á komandi makrílvertíð.
Gólfflötur frystigeymslunnar nær þrefaldast með viðbyggingunni. Núverandi frystiklefi er tæplega 2.000 fermetrar og þjónusturýmið er liðlega 300 fermetrar. Nýbyggingin verður tvískipt á alls 3.800 fermetrum.
Fyrstu hlutar stálgrindar reistir 16. janúar 2017.
Lofthæð er 7,5 metrar í núverandi húsi en verður 10 metrar í nýja hlutanum.
Í nýbyggingunni verður mótordrifið kerfi hreyfanlegra rekka sem stuðlar að betri nýtingu geymslurýmisins og gerir mun auðveldara og aðgengilegra en ella að setja frystivörur í klefana og taka úr þeim aftur.
Aðalverktaki við stækkun frystigeymslunnar er Eykt, sá hinn sami og annaðist framkvæmdir við nýja uppsjávarvinnslu Vinnslustöðvarinnar.
Pólskur undirverktaki reisir stálgrindahúsið, Yabimo frá borginni Tarmow í suðausturhluta Póllands. Þetta er stórt og mikið iðnfyrirtæki sem reisir stálmannvirki af ýmsu tagi og annars konar hús og mannvirki, svo sem brýr.