Við upphaf nýs ár - frá framkvæmdastjóra
Ég óska starfsfólki Vinnslustöðvarinnar og Vestmannaeyingum öllum gleðilegs og farsæls árs með þökk fyrir samstarf og samskipti á liðnum árum.
Hver er sinnar gæfu smiður og gæfusmiðir fyrirtækis eru starfsfólk þess. Það sannaðist enn og aftur í tilviki Vinnslustöðvarinnar á árinu 2021. Áskoranir af ýmsu tagi tilheyra amstri dagsins en stærstu áskoranir undanfarinna tveggja ára tengjast heimsfaraldri COVID 19.
Okkur hefur í sameiningu vegnað vel við að halda veirunni frá starfsemi fyrirtækisins til sjós og lands, þökk sé öflugu sóttvarnaskipulagi, samstöðu og vitund starfsfólks um hve mikið er í húfi fyrir alla að standa þessa heilbrigðisvakt til enda.
Því miður geisar farsóttin enn og nýlegt afbrigði veirunnar dreifir sér hratt um samfélagið. Við skulum því vera vel á verði, halda leikskipulagi og árvekni þar til leikurinn hefur verið flautaður af, svo notuð sé samlíking úr boltaíþróttum, minnug þess að oft fer illa á vellinum þegar lið tapa einbeitingu á lokamínútum eða í framlengingu.
Ástæða var til að óttast að COVID hefði veruleg áhrif á rekstur og starfsemi Vinnslustöðvarinnar en það hefur ekki gerst og við viljum ekki að láta það gerast. Sérlega ánægjulegt er því að geta upplýst að 2021 var eitt besta rekstrarár í sögu fyrirtækisins, þrátt fyrir fyrir allt.
Við getum því sannarlega litið stolt um öxl og sagt við okkur sjálf: Vel gert!
Árangurinn skiptir miklu máli fyrir atvinnuöryggi starfsfólksins, Eyjasamfélagið, þjóðarbúið og íslenskt samfélag yfirleitt. Að sjálfsögðu varðar þetta líka miklu fyrir viðskiptavini okkar og neytendur erlendis.
Góðar og hollar sjávarafurðir, sem skila sér örugglega á áfangastaði um víða veröld, mæla með sér sjálfar. Það verðum við áþreifanlega vör við.
Áfram skal haldið að nýta tækifærin í veiðum, framleiðslu, markaðssetningu og sölu og skapa ný sóknarfæri með fjárfestingum í tækni og þekkingu í þeim anda sem við gerum nú og höfum gert til þessa.
Megi árið 2022 verða okkur gott og gjöfult!
Með nýárskveðju,
Sigurgeir B. Kristgeirsson
framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar