Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Image (1) Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Fyrsti makrílinn fór í byrjun vikunnar í gegnum tæki og tól nýrrar flokkunarstöðvar Vinnslustöðvarinnar og var síðan frystur í nýja uppsjávarhúsinu.

Upphafsdagar vertíðarinnar eru nýttir til að stilla vélar og ganga úr skugga um að gangverkið allt starfi eins og ætlast er til af því. Um eða eftir helgina er gert ráð fyrir að makrílvinnslan verði komin í fullan skrið.

Image

Arinbjörn á Urðartindi. Myndir: Atli Rúnar

Svo vildi til að fréttaritari VSV-vefsins var staddur á Ströndum þegar byrjað var að flokka og frysta makríl í nýju Vinnslustöðvarhúsunum í Eyjum. Á bænum Urðartindi, fyrir botni Norðurfjarðar í Árneshreppi, rekur Arinbjörn Bernharðsson ferðaþjónustu að sumarlagi en hefur annars starfað sem verkstjóri hjá Eykt byggingarfélagi ehf. í tvo áratugi, meðal annars við að reisa uppsjávarhús og flokkunarstöð VSV í Vestmannaeyjum.

Arinbjörn fékk makrílfréttina bóktaflega í æð og fagnaði vel tíðindunum. Honum þótti gott að vinna að þessum verkefnum í Eyjum og hafði sérstaklega orð á trausti og trúnaði sem ríkti í samskiptum VSV og Eyktar. Það sé hreint ekki sjálfgefið að slíkt samband skapist milli verktaka og verkkaupa.

Image (1)

Arinbjörn er öflugur verkstjóri, fylginn sér í verkum og forkur duglegur. Hann er hreinræktaður Strandamaður, fæddur og uppalinn á Urðartindi og þjónar ferðafólki þar á sumrin. Undanfarin ár hefur hann verið þar sjálfur í sumarleyfum eingöngu en látið öðrum eftir að sjá um reksturinn en í ár verður hann sjálfur sumarlangt á vettvangi. Hann byrjaði forðum á að smíða tvö sumarhús til að leigja út en ákvað síðan að innrétta fjárhúshlöðuna á bænum á tveimur hæðum í þágu ferðaþjónustunnar. Á efri hæðinni eru fjögur sérlega smekkleg og fín herbergi með snyrtingum, á þeirri neðri er hreinlætisaðstaða og snyrtingar fyrir gesti á gjaldstæðinu og heill samkomusalur þar sem tjaldbúar geta fengið sér morgunmat og haft afdrep. Þar er oft glatt á hjalla eins og vera ber.

Image (2)

Arinbjörn er býsna lukkulegur með gestaganginn i sumar og segir ferðamannatíðina í ár svipaða og í fyrra. Hann býr sig undir að taka á móti hópi göngufólks frá Dalvík í gistingu og í ágústbyrjun kemur útlendur prófessor með jarðfræðistúdenta til vikudvalar. Slík heimsókn er orðin árviss viðburður, enda skiljanlegt að þeir sem komast á bragðið vilji endilega koma aftur.

Yfirbragðið á fjárhúshlöðunni á Urðartindi lofar meistara sinn, öllu er þar vel og haganlega fyrir komið, fáguðu og fínu. Nú hyggst Arinbjörn færa enn út kvíar og lætur hanna innréttingar herbergja og sameiginlegs rýmis í sjálfum fjárhúsunum. Þannig breytast menn bókstaflega úr sauðfjárbændum i ferðaþjónustubændur.

Image (3)

Og svo þurfa gestir ekki að kvaka lengi í áheyrn gestgjafans ef þeir á annað borð vilja fá mergjaðar sögur af Strandamönnum lífs eða liðnum í sarpinn til að krydda dvölina. Sögur af draugum eru þar ekki undanskildar. Sjálfur segir að Arinbjörn að Ófeigsfjarðar-Móri fylgi sér og hafi áður verið fylgdarmaður föður síns og ættarinnar yfirleitt aftur í aldir. Það fylgdi ekki sögunni hvort Móri hefði fylgt húsbónda sínum til Vestmannaeyja en meiri líkur en minni eru á því að draugurinn umtalaði af Ströndum hafi tekið þar til hendinni með Eyktarmönnum án þess að hirða um að fá uppáskrifað starfsleyfi hjá sýslumanni.

Ófeigsfjarðar-Móri er annars þekktur fyrir að vera svo magnaður að hann hafi meira að segja sést á ljósmyndum. Sumir kenna honum um faraldur sem upp kom í Árneshreppi um miðja sautjándu öld þegar kvenfólk féll í yfirlið við messur í sveitinni með hljóðum, korri og froðufalli. Þurfti á stundum að bera þær út undir bert loft til að prestur fengi guðsfrið til að fara með heilagt orð.

Nú um stundir er mun friðsælla í guðsþjónustum í Árneshreppi, enda Móri kominn í ferðaþjónustu með Arinbirni. Meira að segja baldnir draugar átta sig á að í ferðabransanum gengur ekki að hrekkja fólk og leggjast á það með óhemjugangi. Þar blívur þjónustulundin ein.

Image (4)