Verðmætasköpun upp á tæplega 12,9 milljarða króna
Verðmætasköpun Vinnslustöðvarinnar nam 12.888 milljónum króna á árinu 2015, samkvæmt útreikningum KPMG á skattaspori fyrirtækisins. Með því að leggja saman rekstrartekjur, afkomu af umboðssölu, fjármunatekjur og söluhagnað fæst þessi niðurstaða, þ.e. verðmætin sem félagið skapaði með rekstri sínum árið 2015.
Verðmætunum var ráðstafað til samfélagsins með ýmsu móti; einkum launagreiðslum til starfsfólks, greiðslu launatengdra gjalda, kaupum á aðföngum frá birgjum, greiðslu veiðigjalda og annarra opinberra gjalda.
Skattbyrði félagsins nam tæplega 1,8 milljörðum króna eða sem svarar til 13,7% af verðmætasköpun þess. Ríflega fjórðungur skattbyrðinnar var vegna veiðigjalda.
Vinnslustöðin innheimti og stóð skil á nær 1,4 milljarða króna sköttum og gjöldum sem tengdust beinlínis rekstrinum og verðmætum sem hann skilaði.
Skattaspor Vinnslustöðvarinnar nam því samtals 3.147 milljónum króna árið 2015 og jókst um 9,6% frá fyrra ári.
Skattaspor tekur til gjaldfærðra skatta í rekstri fyrirtækisins og þeim sköttum sem það innheimtir og skilar.