Vel heppnuð sýning í Boston
Það hefur verið heldur betur líflegt hjá starfsmönnum, Vinnslustöðvarinnar og dótturfélaga á Seafood Expo North America, sem staðið hefur yfir síðustu daga. Seafood Expo North America er stærsta sýning sinnar tegundar í Norður Ameríku. Þúsundir kaupenda og birgja víðs vegar úr heiminum sækja þessa árlegu þriggja daga sýningu í Boston til að styrkja böndin og eiga viðskipti. Þarna koma saman innflutningsaðilar, útflytjendur, framleiðendur, heildsalar og hin ýmsu matvælatengdu fyrirtæki.

Farið yfir málin í VSV básnum.
Áhyggjur af yfirvofandi tollastríði
Björn Matthíasson rekstrarstjóri VSV Seafood Iceland er einn af áðurnefndum starfsmönnum sem staðið hefur vaktina í VSV básnum.
„Þarna safnast saman birgjar frá yfir 50 löndum með það eitt markmið í huga að veita áhugasömum kaupendum í Norður Ameríku og víðar stað undir einu þaki til að opna fyrir viðskipti og styrkja þau sem fyrir eru.” segir hann í samtali við Vinnslustöðvarvefinn.
Björn hefur sótt sýninguna margsinnis áður. Aðspurður um hvort þessi sé eitthvað frábrugðin þeim fyrri segir hann að svo sé. „Það er talsvert breytt landslag á þessum markaði ef maður ber það saman við sama tíma á síðasta ári þegar við heimsóttum sýninguna. Eftirspurnin hefur aukist til muna frá því sem þá var en maður skynjar svo sterkt áhyggjur manna af yfirvofandi tollastríði. Menn hafa eðlilega miklar áhyggjur af því,” segir hann.

Starfsmenn VSV og dótturfélaga sem sóttu sýninguna.
Búa til sambönd sem við getum byggt á til framtíðar
Björn var í viðtali við 200 mílur í gær. Þar sagði hann að Bandaríkin skipi sífellt mikilvægari sess sem kaupandi íslensks sjávarfangs og er aukning í fjölda íslenskra sýnenda dæmi um það.
Í viðtalinu var haft eftir honum að Vinnslustöðin hafi verið að selja inn á Ameríku, bæði í gegnum Hólmasker í Hafnarfirði og Leo Seafood. „Við erum nýlega búin að stofna söluskrifstofu í Bandaríkjunum, VSV America, þar sem við erum að stíga skref í þá átt að stýra sölunni meira sjálfir og búa til sambönd sem við getum byggt á til framtíðar.“
Allt viðtalið við Björn má lesa hér. Fleiri myndir frá sýningunni má sjá hér að neðan.

Seafood Expo North America er stærsta sýning sinnar tegundur í Norður Ameríku.

Þúsundir kaupenda og birgja víðs vegar úr heiminum sækja þessa árlegu þriggja daga sýningu í Boston.
