Fara á efnissvæði
World Map Background Image
DSC 1123 Cr Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Um síðustu helgi heimsóttu félagar í Félagi skipa- og bátaáhugamanna Vestmannaeyjar.

Félagið var stofnað í Reykjavík í febrúar árið 2012 og er tilgangur félagsins að efla áhuga og umræðu um skip og báta af öllum stærðum og gerðum, flytja kynningarefni, fræðsluefni og stunda sögulegar rannsóknir tengdar skipum og siglingum í víðu samhengi.

Að sögn Sverris Konráðssonar, formanns félagsins samanstendur félagið af nokkur hundruð félögum, skipstjórnarmönnum, vélstjórum, hásetum og öðrum sem áhuga hafa á siglingum og skipum. Félagsfundir eru haldnir í Víkinni fyrsta þriðjudag í hverjum mánuði yfir vetrartímann þar sem félagsmenn kynna hugðarefni sín og fá fyrirlesara til að fjalla um mál tengd siglingum, skipum og útgerð. Tilgangur ferðarinnar var að heimsækja Vestmannaeyjar, skoða siglingatengda starfsemi og kynnast mannlífinu í mikilvægum útvegsstað.

Fengum góðar móttökur alls staðar

Hvað skoðuðu þið í Eyjum?

Rúmlega fimmtíu félagar komu með rútu til Eyja. Við ókum um Heimaey, fórum í Herjólfsdal, skoðuðum Hundraðmannahelli, ókum upp á Stórhöfða og nutum útsýnisins til úteyja í suðri. Síðan skoðuðum við Sjóminjasafn Þórðar Rafns á Dala-Rafni sem félagar sýndu mikinn áhuga. Rabbi á heiður skilinn fyrir áhugavert safn sjóminja og varðveislu þeirra fyrir komandi kynslóðir. Að því loknu héldum við í skoðunarferð í landeldisstöðina Laxey og fengum frábæra leiðsögn þar. Skoðuðum t.d. uppbygginguna í Viðlagafjöru. Að lokum bauð Vinnslustöðin upp á dagskrá fyrir okkur. Við skoðuðum síðan frystigeymslur, fórum bryggjurölt með starfsmönnum og litum síðan við á netaverkstæðinu þar sem við nutum léttra veitinga í boði Vinnslustöðvarinnar.

Hvernig fannst ykkur?

Allir félagar okkar luku upp lofsorði um ferðina. Við vorum mjög heppnir með veður, allar áætlanir stóðust og við fengum góðar móttökur alls staðar.

DSC 1110 Cr

Willum Andersen, tæknilegur rekstrarstjóri VSV fór um fyrirtækið með hópnum.

Blómlegt atvinnulíf og mannlíf

Spurður hvort eitthvað hafi komið þeim á óvart segir Sverrir að atorkusemi og dugnaður Eyjamanna komi þeim svo sem ekki á óvart. „Við fengum einungis staðfestingu á því að atvinnu- og mannlíf í Vestmannaeyjum er í alla staði blómlegt. Okkur þótti gaman að skoða okkur um við höfnina, spjalla við sjómenn, fylgjast með skipaumferð og kíkja á veitingastaðina.”

Að endingu vill hann koma á framfæri bestu þökkum til allra þeirra sem tóku á móti þeim félagsmönnum. Þeim Binna í Vinnslustöðinni ásamt Sverri, Willum og Guðna. Einnig þakkir til Rabba í Sjóminjasafninu og til Óskars Jósúasonar, talsmanns Laxeyjar fyrir frábæra kynningu. Þakkir til Kára meistarakokks á Kránni fyrir góða og snögga þjónustu. Einnig þökkum við skipverjum á Herjólfi fyrir örugga siglingu milli lands og Eyja, segir Sverrir Konráðsson formaður Félags skipa- og bátaáhugamanna í samtali við Vinnslustöðvar-vefinn.

Hópurinn stillti sér upp fyrir myndatöku. Ljósmyndir/Óskar Pétur Friðriksson