Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Whatsapp Image 2025 04 08 At 17.20.04 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Aðfaranótt mánudagsins sl. var gerð árás á höfuðstöðvar eins af viðskiptavinum Vinnslustöðvarinnar í Úkraínu. Fyrirtækið er með alls 25 verslanir vítt og breitt um Úkraínu. Flestar þeirra eru í borginni Sumy.

Stærsti hluti framleiðslunnar gjöreyðilagðist

„Það var áfall að fá þær fréttir í byrjun vikunnar að einn af okkar viðskiptavinum IE Kulomza í Úkraínu hefði orðið fyrir drónaáras af hendi Rússa.

Skemmdirnar eru gríðarlegar en þar sem árásin var gerð að næturlagi var verksmiðjan mannlaus og sem betur fer urðu ekki slys á fólki.

Óvíst er hvort þeir reisi sig við eftir þessi ósköp. Stærsti hluti framleiðslunnar, vöruhús og skrifstofur gjöreyðilögðust ásamt um 400 tonnum af sjávarafurðum,” segir Björn Matthíasson rekstarstjóri VSV Seafood Iceland.

Whatsapp Image 2025 04 08 At 17.20.03 (3)

Aðfaranótt 7. apríl var ráðist á fyrirtækið sem ollu miklum sprengjum og eldi.

Allt breyttist á einni nóttu

Natalia Tsibulskaya er yfirmaður innkaupadeildar hjá IE Kulomza. Hún segir í samtali við Vinnslustöðvarvefinn að fyrirtækið hafi verið stofnað árið 2000.

„Á síðustu 25 árum höfum við byggt upp sterkt og traust fyrirtæki, með 350 starfsmenn. Þar á meðal starfsfólk sem vinnur í vörumerkjaverslunarkeðju sem tilheyrir fyrirtækinu okkar. Í mörg ár í röð hefur fyrirtækið okkar verið stærsti skattgreiðandi í Sumy-svæðinu og lagt mikið til þróunar á staðbundnu efnahagslífi og samfélagsþróun. Við erum fullvinnslufyrirtæki sem inniheldur eigin innflutning á frystum fiski og sjávarfangi, framleiðslu á fullunnum fiskvörum, heildsölu og smásölu í gegnum verslunarkeðju okkar.

Allt þetta breyttist á einni nóttu. Aðfaranótt 7. apríl var ráðist á fyrirtækið okkar af átta rússneskum drónum sem ollu miklum sprengjum og eldi sem logaði yfir svæðinu þar sem aðstaða okkar er staðsett. Guð sé lof að enginn starfsmaður okkar slasaðist, þar sem árásin átti sér stað að nóttu til. Hins vegar eru afleiðingarnar hræðilegar. Kælirými okkar og skrifstofubyggingar hafa verið eyðilagðar. Af fimm vinnsludeildum verksmiðjunnar er aðeins ein — sú sem framleiðir reyktar vörur — í lagi. Bílageymslan okkar, sem notuð var til afhendingar á vörum, var einnig eyðilögð. Nú hefur fólk úr okkar teymi unnið dag og nótt við að hreinsa rústirnar,” segir Natalia.

Unnið er dag og nótt við að hreinsa til.

Ótrúlegur stuðningur

Hún segir enn fremur að þegar íbúar Sumy hafi fengið vitneskju um þá hrikalegu nótt sem fyrirtæki þeirra hafði gengið í gegnum, hafi þeir sýnt ótrúlegan stuðning.

„Það voru langar raðir í verslunum okkar frá viðskiptavinum sem voru áhugasamir um að kaupa vörurnar okkar. Það kemur ekki á óvart, þar sem íbúar borgarinnar hafa alltaf metið hágæðavörur okkar.

Þessi stuðningur gefur okkur kraft og hvata til að endurreisa fyrirtækið og hefja starfsemi okkar á ný eins fljótt og auðið er, þó að tjónið sé gífurlegt. Næstu daga munum við hefja mat á öllum tjóni í tölulegu formi,” segir Natalia að endingu.

Hlutdeild Úkraínumanna 10-15%

„VSV selur talsvert af frosnum afurðum inn á Austur Evrópu,  til landa eins og Georgíu, Póllands og Búlgaríu en stærsti hluti þess magns sem fer inn á Austur-Evrópu fer inn á Úkraínu. Af öllum útfluttum frystum afurðum þá er hlutdeild Úkraínumanna frá VSV 10-15%,“ segir Björn Matthíasson.

Aðspurður um hvort stríðið hafi breytt miklu varðandi kauphegðun Úkraínumanna segir hann svo vera. „Kauphegðun þeirra hefur verið með öðrum hætti í stríðinu og af augljósum ástæðum hafa þeir ekki verið að kaupa eins mikið inn í birgðir hjá sér því þetta er jú alltaf hættan, að verða fyrir algjörri eyðileggingu.

Áskoranir Úkraínumanna hafa verið gríðarlega erfiðar frá því stríðið hófst og er mjög erfitt fyrir okkur að setja okkur í þá stöðu sem þeir eru í. Á þessu sést hversu ástandið getur verið brothætt en hugur okkar er hjá þeim og vonum við að stríðinu ljúki fyrr en seinna og friður komist á,“ segir hann.

Ukrainsk Verslun

Ein af 25 verslunum IE Kulomza í Úkraínu.