Ufsaveisla á Papagrunni
Bæði Breki og Þórunn Sveinsdóttir héldu á austfjarðamið fyrir helgi og komu til löndunar í byrjun vikunnar. Breki á mánudag og Þórunn í gær. Uppistaða aflans var ufsi hjá báðum skipunum. Óskar Þór Kristjánsson er skipstjóri á Þórunni Sveinsdóttur.
„Við fórum út á miðvikudaginn í síðustu. Byrjuðum í Reynisdýpi. Þar var slatti af ufsa. Þaðan héldum við í Breiðamerkurdýpi. Þar var kropp, aðalega ufsi og ýsa. Því næst héldum við á Gula teppið. Ég var ræstur um nóttina þar sem fregnir voru af mokveiði á Papagrunni. Við tókum því stefnuna þangað enda ekki langt að fara. Þetta var algjör veisla. Við vorum að fá frá 12 upp í 20 tonn í hali. Vorum með rúmlega 100 tonn af ufsa á rúmum sólarhring.“
Óskar segir að þetta hafi verið stór og góður ufsi, sem þarna fékkst. „Ég hlakka til að sjá jólabónusinn frá Binna.“ segir Óskar Þór.
Þeir stoppuðu ekki lengi í landi. Þegar fréttaritari vsv.is náði tali af Óskari Þór á ellefta tímanum í morgun voru þeir komnir 20 mílur austur af Eyjum. Stefnan er aftur tekin á austfjarðamið.