Tvær rannsóknartillögur samþykktar á hluthafafundi
Hluthafar Vinnslustöðvarinnar komu saman í morgun að kröfu Brims hf., næststærsta hluthafans, til að afgreiða tillögu Brims um að „fram fari rannsókn á lánveitingum Vinnslustöðvarinnar hf. til tveggja starfsmanna og hluthafa í Vinnslustöðinni hf. á árinu 2008 og afskrift þeirra á árinu 2018.“
- Tillagan var samþykkt, enda á Brim yfir 30% hlutafjár í Vinnstöðinni, mun stærri hlut en þarf til að fá slíka rannsóknartillögu samþykkta, sbr. ákvæði 97. greinar laga um hlutafélög nr. 2/1995:
„Hljóti tillagan fylgi hluthafahóps sem ræður yfir minnst [1/10] hlutafjárins getur hluthafi í síðasta lagi einum mánuði frá lokum fundarins farið þess á leit við ráðherra að hann tilnefni rannsóknarmenn. Tilmælin skal taka til greina, svo framarlega sem ráðherra telur nægilegar ástæður til þeirra. “
- Stjórnarformaður Vinnslustöðvarinnar hvatti Brim til að draga tillöguna til baka, enda væri hún óþörf og öllum spurningum viðkomandi lánamálinu hefði verið svarað á aðalfundi félagsins 4. apríl 2018.
- Aðrir hluthafar en fulltrúi Brims greiddu atkvæði gegn tillögunni.
- Ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra tekur síðan afstöðu til samþykktarinnar um að hann skipi tvo rannsóknarmenn, lögfræðing og löggiltan endurskoðanda, til að fjalla um rannsóknarefnið.
Seil ehf., stærsti hluthafinn í Vinnslustöðinni, bar fram aðra tillögu sem kynnt var og samþykkt líka á hluthafafundinum þess efnis að Seil og Vinnstöðin leggi sameiginlega til á næsta hluthafafundi Landsbankans hf. að „fram fari rannsókn á skuldaafskriftum bankans gagnvart félögum tengdum Guðmundi Kristjánssyni. Rannsakað verði hvort um óeðlilega undirverðlagningu hafi verið að ræða þegar félagi tengdu Guðmundi var veitt heimild til að kaupa Brim hf. út úr gjaldþrota móðurfélagi sínu, Línuskipum ehf., kt. 411104-2730, og skilja Línuskip ehf. (nú xx26 ehf.) eftir sem eignalaust félag með milljarðaskuldir við bankann, sem að stærstum hluta er í eigu íslensku þjóðarinnar.“
- Vinnslustöðin og Seil eru hluthafar í Landsbankanum.
- Tillagan var samþykkt. Brim hf. sat hjá í athvæðagreiðslu en aðrir hluthafar greiddu tillögunni atkvæði.
- Fulltrúi Brims hf. lagði áður til að tillögu Seilar yrði vísar frá en því hafnaði fundarstjórinn.
- Samþykktin felur í sér stuðning meirihlutaeigenda Vinnslustöðvarinnar við að leggja til við hluthafa Landsbankans að þeir samþykki beiðni til ráðherra um að hann skipi rannsóknarmenn gagnvart Landsbankanum og tilteknum viðskiptum bankans við félög Guðmundar Kristjánssonar. „Beiðnin muni einnig ná til annarra atriða sem rétt er og eðlilegt að verði skoðuð í tengslum við þessi viðskipti, bæði í nútíð og fortíð,“ segir í niðurlagi samþykktar hluthafafundar Vinnslustöðvarinnar.