Tóku forskot á sæluna
Jólahlaðborðin eru hafin vítt og breitt um landið. En ekki einungis til lands heldur líka til sjós.
Guðmundur Helgason, háseti og afleysingakokkur á Breka VE kom skipsfélögum sínum í jólagírinn í síðasta túr, þegar hann töfraði fram glæsilegt jólahlaðborð.
Litlu jólin um borð. Er hefð fyrir þessu hjá ykkur á Breka? Nei þetta er í fyrsta skipti sem ég býð upp á þetta, segir Guðmundur í samtali við Vinnslustöðvarvefinn.
Matthías fékk möndluna
Spurður hvað hann hafi boðið upp á, segir hann að það hafi verið allt það helsta sem prýðir gott jólahlaðborð. Má þar nefna lax, pate, síldarsalat, purusteik, hamborgarhrygg, hangikjöt, lambafille og í eftirrétti voru m.a. ostakaka, ris ala mandle og tiramisu.
Í ris ala mandle var svo ein heil mandla sem var ávísun á enn frekara góðgæti. Fékk sá heppni – Matthías Ragnarsson sérstaka möndlugjöf.
Fullfermi eins og alltaf
Guðmundur sem er búinn að vera í tvö og hálft ár í áhöfn Breka sem háseti og er eins og áður segir afleysingarkokkur og leysir Ingólf Ingvarsson af, svarar að bragði - aðspurður um hvort ekki sé kominn jólafílingur í mannskapinn: Jú, allir að detta í jólaskapið.
En hvernig gekk túrinn? Mjög vel. Sex daga túr á vestfjarðamiðum. Fullt skip (eins og alltaf) af blönduðum afla, segir Guðmundur léttur í bragði.