Fara á efnissvæði
World Map Background Image
K94A0568 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Þrefalda nánast afköstin í hreinsistöðinni

„Platan á fyrstu hæð er að klárast í þrónni og er síðasti parturinn klár í að vera steyptur. Þá eru þeir búnir að slá upp fyrir plötunni á annarri hæð að stórum hluta. Verkið er að mestu á áætlun en vinna við lagnir og hreinsistöðina hafa verið erfiðari en við reiknuðum með.“ segir Willum Andersen, tæknilegur rekstrarstjóri Vinnslustöðvarinnar.

Hann segir að þegar platan verði klár á fyrstu hæð verði farið í plötuna á annarri og svo hækkun á þeim veggjum sem þarf að hækka. Svo verður farið í þakið.

„Við erum að reikna með að það verði búið að loka húsinu í haust. Samfara þessu verður húsið í portinu byggt. Það er gaman að segja frá því að við erum nánast að þrefalda afköstin í hreinsistöðinni úr 140m3 í 400m3 á klukkustund og eigum að geta nýtt mun betur það sem fellur frá vinnslunum i bræðsluna. Þessi búnaður kemur frá Huber og er Iðnver umboðsaðili.“ segir Willum.

Verður hægt að ná sem mestu af próteini úr frávatninu og endurnýta það

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Iðnvers segir í samtali við Vinnslustöðvar-vefinn að hreinsistöðin komi til landsins í byrjun september. Pétur segir aðspurður um hvað slík hreinsistöð geri að markmiðið með hreinsuninni sé að hreinsa frávatn frá starfsstöðvum VSV og auka þannig verðmætasköpun.

„En með því að bæta frárennslibúnað er hægt að nýta betur auðlindir félagsins. Með vélbúnaði frá Huber verður hægt að ná sem mestu af próteini úr frávatninu og endurnýta það í bræðslunni. Um verulegt magn er að ræða sem verður hægt að gera verðmæti úr sem annars færi til spillis. Nútímakrafa er að fyrirtæki fjárfesti í aukinni sjálfbærni í sínum rekstri sem stuðlar að aukinni verðmætasköpun. Þessi búnaður er líka til þess ætlaður að VSV standist þær mengunarkröfur sem gerðar eru til þeirra með losun í sjó.“ segir hann.

Samstarfið framúrskarandi

Guðmundur Óskar Aðalsteinsson, verkefnastjóri hjá Eykt, sem annast byggingu hússins segir framkvæmdirnar ganga vel.

„Í næstu viku klárum við að steypa plötu fyrstu hæðar. Þá kláraðist uppsteypa hreinsistöðvar í þessari viku. Þetta var hugsanlega flóknasti parturinn af framkvæmdinni sem og allar þær lagnir sem eru undir plötunni.”

Hann segir að unnið sé að undirslætti fyrir plötu á annarri hæð og þá er hafin vinna við koma fyrir togvírum í plötuna sem á seinna að strekkja. En það er samskonar uppbygging á plötunni og brúarsmíði.

„Við munum hefjast handa við að steypa plötuna á næstu þremur vikum. Farið verður þá í að steypa veggi á annari hæð og koma upp þaki.”

Spurður um fjölda þeirra sem komi að verkinu segir Guðmundur Óskar að í dag séu frá Eykt 23 starfsmenn auk þriggja í verkstjórn og á dagskrá sé að bæta í. Einnig eru ca. 4 – 6 menn frá Miðstöðinni í framkvæmdunum og 2 frá Brinks gröfuþjónustu.

„Ef það ætti að nefna eitthvað sem er framúrskarandi við þetta verkefni þá væri það hversu gott samstarf hefur verið hér á milli allra aðila. Það er ekki sjálfgefið að fara í þetta flókið verkefni og ófyrirséð - byggja ofan á gamla loðnuþró - og komast svona átakalaust í gegnum það. Þá myndi ég minnast helst á Símon hjá Brinks og Bjarka hjá Miðstöðinni. ” segir Guðmundur Óskar að endingu.

Myndband frá framkvæmdunum má sjá hér að neðan.