Þór Vilhjálms heiðraður í sumarkaffi VSV
Þór Vilhjálmsson var heiðraður og honum færðar þakkir Vinnslustöðvarinnar í kaffisamsæti VSV sumardaginn fyrsta. Hann lét af störfum vegna aldurs, sem þykir mörgum lyginni líkast því fjarri fer að maðurinn beri æviárin og langan starfsferil utan á sér.
Þór hefur í áratugi verið stofnun í sjálfu sér innan vébanda Vinnslustöðvarinnar. Hann hóf þar störf í framkvæmdastjóratíð Stefáns Runólfssonar 1980 við að laga frystipönnur í Himnaríki, gerðist síðan verkstjóri í fiskmóttöku, matsmaður í skreið og saltfiski, verkstjóri í norðurhúsinu og loks starfsmannastjóri.
Hin síðari ár bar hann titil upp á dönsku í starfsmannahaldinu: altmuligmand. Allsherjarreddari. Svo var hann ómissandi sögumaður og gleðigjafi í kaffistofunni. Það var utankvótaframlag hans til starfsemi fyrirtækisins, seint metið til fjár.
Þór Vilhjálmsson var kvaddur með virktum og silfurdiski á fyrsta degi sumars. Íslandsfálkann ætti hann skilið líka að fá frá Guðna Th. í Bessastaðastofu en í millitíðinni rær hann til fiskjar á trillunni sinni, Dolla í Sjónarhól.
Þrír starfsmenn VSV fengu tímamótaglaðning: Danuta María Wanecka og Stefán Birgisson, stýrimaður á Breka VE, í tilefni sextugsafmæla og Jón Atli Gunnarsson, stýrimaður á Kap VE, í tilefni fimmtugsafmælis.
Fjöldi fólks sótti kaffisamsæti og naut stundarinnar í tilefni sumarkomunnar.
- Addi í London tók meðfylgjandi myndir.