Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Image Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

„Vertíðin nú hefur allt annað yfirbragð en við höfum séð svo áratugum skiptir. Mjög mikil loðna og afar gott hráefni,“ segir Magnús Jónasson, skipstjóri á Sighvati Bjarnasyni VE.

Skipið kom til hafnar í dag með um þúsund tonn af loðnu sem fengust vestur undir Búðagrunni. Þetta er önnur veiðiferð Sighvats eftir að verkfalli lauk og ætla má að hann leggi upp í þá þriðju á morgun, mánudag.

Image

Sighvatur Bjarnason VE á leið til hafnar í dag.

Rífandi gangur er í loðnuveiðum á miðunum og stemningin eftir því til sjós og lands í Vestmannaeyjum.

Maggi á Sighvati hefur skýringar á reiðum höndum á þessari mögnuðu vertíð:

„Þegar trollað er í loðnunni fyrir austan land truflast göngumynstur hennar. Núna var ekkert trollað fyrir austan og loðnan gekk óáreitt sína leið suður með landinu, ósærð og virkilega myndarleg. Hana á einungis að veiða í nót.

Loðnan sem við erum í núna á eftir um það bil viku þar til hún hrygnir. Mér finnst hins vegar líklegt að við sjáum líka loðnugöngu að vestan og þar með gæti teygst á vertíðinni.

Svo er ég á því að meiri loðna sé í sjónum en Hafrannsóknastofnun gerir ráð fyrir. Það er útilokað að hægt sé að mæla þetta af nákvæmni á svo stóru hafsvæði.  Bændur fara í göngur og smala fé á fjalli. Alltaf verður eitthvað eftir sem eðlilegt er. Ég gæti nú trúað að eitthvað verði út undan líka þegar fiskur er mældur í sjónum. Vísindin eru varla óskeikul að þessu leyti.

Ástandið er í það minnsta betra en við höfum orðið vitni að í fjölda ára og fróðlegt að velta fyrir sér skýringu á því. Mín kenning er sem sagt sú að loðnan hafi í vetur einfaldlega fengið frið til að hegða sér eins og henni er eðlislægt.“