Sverrir nýr formaður ÍSF
Á dögunum var haldinn aðalfundur Íslenskra saltfiskframleiðenda (ÍSF). Félagið – sem stofnað var árið 2008 - er vettvangur framleiðenda saltaðra fiskafurða, til að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum og stuðla að rannsóknum og þróun í greininni. Fyrirtækjum í söltun sjávarafurða hefur fækkað mjög á undanförnum árum en engu að síður er enn til staðar öflug framleiðsla og útflutningur saltfiskafurða frá Íslandi.
Á fundinum var kjörin ný stjórn þar sem Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri botnfisks hjá Vinnslustöðinni verður formaður. Með Sverri í stjórn eru Jóhann Helgason frá Vísi í Grindavík sem er varaformaður, Gunnlaugur Eiríksson frá Þorbirni í Grindavík er gjaldkeri, meðstjórnendur eru Arkadiusz Lakomski frá KG Fiskverkun í Rifi, Ágúst Már Gunnlaugsson frá GPG Seafood á Húsavík, Mjöll Guðjónsdóttir frá Soffaníasi Cecilssyni í Grundarfirði og Níels A. Guðmundsson frá Iceland Seafood. Sigurjón Arason frá Matís er stjórninni til ráðgjafar, eins og hann hefur verið frá upphafi félagsins.
Saltfiskafurðir verði áfram mikilvægar í útflutningi Íslendinga
Sverrir segir í samtali við Vinnslustöðvar-vefinn að félagið gegni mikilvægu hlutverki, þótt starfsemi þess hafi ekki alltaf verið fyrirferðarmikil.
„Upphaf félagsins má rekja til þess að til stóð að banna innflutning til Evrópusambandsins, á söltuðum fiskafurðum sem innihéldu viðbætt fosfat, án þess að gild rök væru fyrir því. Fosfat er mikilvægt þráavarnarefni í sumum saltfiskafurðum, fyrir Spánar- og Ítalíumarkað. Þetta hefði falið í sér mismunum gagnvart öðrum vörum og skemmt mjög fyrir stórum hluta iðnaðarins. Með samstilltu átaki tókst þá að hnekkja þeim ákvörðunum og gegndi ÍSF þar lykilhlutverki sem samstarfsvettvangur framleiðenda. Félagið er nú, eins og þá, tilbúið til að takast á við sameiginleg hagsmunamál með sama hætti. Slík mál eru stöðugt í vinnslu og skoðun hjá félaginu.
Einnig er það nú hlutverk félagsins að stuðla að framþróun í þágu saltfiskiðnaðarins. Í því felst að koma að rannsóknum og þróun en aðalsamstarfsaðili okkar þar er Matís sem við vinnum mjög náið með. Nú er verið að vinna að áhugaverðum verkefnum sem kynnt voru á nýafstöðnum aðalfundi ÍSF.
Annað sem má nefna eru kynningarmál en ÍSF hefur unnið mikið með Íslandsstofu í þeim efnum. Einnig höfum við átt gott samstarf við veitingamenn og nefna má sérstaklega Menntaskólann í Kópavogi sem býður upp á öflugt nám í matvælagreinum.
Saltfiskframleiðsla hefur vissulega dregist saman og framleiðendum hefur fækkað mikið en ég trúi því að saltfiskafurðir verði áfram mikilvægar í útflutningi Íslendinga um ókomna tíð. Það eru fáir, ef nokkrir, markaðir sem meta uppruna vöru jafn mikils og saltfiskmarkaðir S – Evrópu. Þar eru afurðir frá Íslandi metnar hæst af öllu því sem í boði er! Slíkir markaðir eru okkur afar verðmætir, til langs tíma litið,“ segir Sverrir.
Þróa skilvirkar aðferðir til að greina og sannreyna uppruna saltfisks
Einn helsti samstarfsaðilili ÍSF hefur verið Matís sem unnið hefur fjölmörg rannsóknaverkefni í samstarfi við félagið. Á fundinum voru tvö erindi sem bæði komu frá Matís og snerust þau um að kynna verkefni sem unnin hafa verið í samstarfi við ÍSF.
Davíð Gíslason, verkefnastjóri hjá Matís fór yfir stöðu verkefnisins „Saltfisksvindl - eftirlit og upprunavottun fyrir íslenskar saltfiskafurðir“. Verkefnið er unnið af Matís, í samstarfi við saltfiskframleiðendur. Markmið verkefnisins er að þróa skilvirkar aðferðir til að greina og sannreyna uppruna saltfisks. Nú þegar hefur verkefnið leitt í ljós áhugaverðar staðreyndir í þessum efnum. Verkefnið er enn í vinnslu og endanlegra niðurstaðna er að vænta fljótlega.
Ímynd saltfisks á Íslandi skiptir miklu máli
Kolbrún Sveinsdóttir flutti því næst erindi sitt sem nefndist „Er saltfiskur í boði“. Kolbrún er verkefnastjóri hjá Matís og gestaprófessor við matvæla- og næringarfræðideild heilbrigðisvísindasviði Háskóla Íslands. Hún hefur í starfi sínu hjá Matís stýrt saltfisktengdum verkefnum Matís sem hún sagði frá í erindi sínu.
Matís gerði árið 2019, könnun á neyslu viðhorfum gagnvart saltfiski og voru niðurstöður þeirrar könnunar afar áhugaverðar. Ímynd saltfisks á Íslandi skiptir miklu máli fyrir útflutning og markaðsstarf erlendis. Saltfiskur er sögu- og menningarleg arfleifð sem Íslendingar eiga að vera stoltir af.
Umfangsmikið verkefni í vinnslu
Einnig hefur Matís unnið að verkefninu „Saltfiskkræsingar“ síðan árið 2022 en það er hluti samstarfsverkefnis Íslendinga, Norðmanna og Færeyinga undir nafninu „Trendy Cod“. Markmið verkefnisins Saltfiskkræsingar er að efla tengsl innan virðiskeðjunnar, auka þekkingu, virðingu og neyslu á saltfiski auk þess að þróa nýja eða bætta tilbúna rétti sem byggja á hefðbundum saltfiski. Verkefnið er umfangsmikið og hefur verið unnið í samstarfi Matís, Gríms Kokks, Menntaskólans í Kópavogi, Íslenskra saltfiskframleiðenda, Vinnslustöðvarinnar, Klúbbs matreiðslumeistara og Íslandsstofu. Verkefnið er í enn í vinnslu og verið er að undirbúa næstu skref.