Fara á efnissvæði
World Map Background Image
15 Img 6994 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Sæmdarhjónin Kolbrún Þorsteinsdóttir og Sverrir Gunnlaugsson voru heiðursgestir í Þingvallakirkju í gær við athöfn í tilefni af því að nákvæmlega 300 ár voru liðin frá andláti Jóns Skálholtsbiskups Vídalíns (1666-1720).

Sverrir var um árabil skipstjóri á togaranum Jóni Vídalín VE og séra Kristján Björnsson, vígslubiskup í Skálholti, sagði í ávarpi í kirkjunni að Sverrir væri eini maðurinn í Íslandssögunni sem hefði tekist að stjórna Jóni Vídalín!

Í turni Þingvallakirkju er merkileg klukka sem Vídalín biskup gaf á sínum tíma til kirkjunnar og Einar Á. E. Sæmundssen hringdi henni að sjálfsögðu oft og lengi í tilefni dagsins.

Að athöfn lokinni var ekið liðlega 20 kílómetra að hryssingsveðri fyrstu haustlægðarinnar í ár að Biskupsbrekku við Uxahryggjaveg þar sem önnur athöfn átti sér stað í tilefni af 300 ára ártíð meistara Vídalíns.

Í þessari brekku andaðist Vídalín 30. ágúst 1720 á leið sinni vestur á Snæfellsnes. Þarna hefur frá árinu verið álkross á minningarsteini frá 1963 en engar heimildir eru um hver hafi komið honum fyrir.

Nú hefur verið reistur þarna veglegur trékross í minningu Vídalíns og minnismerki við hann eftir Pál Guðmundsson á Húsafelli. Páll fann steininn á Kaldadal og sagði að ásjóna biskups hefði verið þar fyrir. Hann hefði einungis þurft að skerpa ögn andlitsdrættina!

Séra Kristján Björnsson í Skálholti stýrði vígsluathöfninni og fleiri tóku þátt í henni, þar á meðal biskupinn yfir Íslandi, séra Agnes M. Sigurðardóttir og séra Geir Waage í Reykholti. Páll á Húsafelli lék á steinhörpuna sína. Einn steinninn í hljóðfærinu er helgaður séra Jóni Vídalín og gefur frá sér tóninn E.

Skálholtsfélagið hið nýja beitti sér fyrir því að meistara Vídalíns yrði minnst á þennan hátt, með Erlend Hjaltason stjórnarformann í fararbroddi.

Vinnslustöðin styrkti verkefnið í minningu Jóns Vídalíns Skálholtsbiskups og Sverri skipstjóra á Jóni Vídalín VE var verðskuldaður sómi sýndur við þessar áhrifaríku afhafnir í Þingvallakirkju og við Biskupsbrekku.

1 Img 6823
2 Img 6859
3 Img 6873
4 Img 6866
5 Img 6829
6 Img 6878
7 Img 6894
8 Img 6896
9 Img 6900
10 92663097 221175792307237 4917380586303127552 N
11 Img 6942
12 Img 6944
13 Img 6987
14 Img 6978
15 Img 6994