Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Screenshot 2023 11 29 At 13.02.01 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Í blaðinu Stundinni, 4. tbl. 2022, er fjallað í ítarlegu máli um kjörræðismann Íslands og fiskinnflytjanda í Belarus/Hvítarússlandi, Aleksander Moshensky, tengsl hans við einræðisherrann Lukasjenko þar í landi – bandamann Vladimirs Pútíns Rússlandsforseta.

Vinnslustöðin og framkvæmdastjóri hennar, Sigurgeir B. Kristgeirsson, koma við sögu í umfjölluninni þar sem langt er seilst.  Hugrenningartengslin sem Helgi Seljan, titlaður „rannsóknaritstjóri“, leitast við að skapa, eru augljós: Með viðskiptum við Santa Bremor og aðaleiganda þess fyrirtækis, Alexander Moshensky, hefur Vinnslustöðin/framkvæmdastjóri hennar gerst bandamaður einræðisherrans Lukasjenkos og þar með Kremlarbóndans Pútíns í stríðsrekstrinum í Úkraínu!

Að því gefna tilefni lýsir framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar yfir eftirfarandi:

 

,,Enn og aftur gerir Helgi Seljan, nú hvorki meira né minna en „rannsóknaritstjóri, sig sekan um vinnubrögð sem verðskulda hreina og klára falleinkunn. Það er reyndar ekki í fyrsta sinn sem það gerist þegar hann fjallar um málefni Vinnslustöðvarinnar.

Í villta vestrinu var víst til siðs í samskiptum manna að skjóta fyrst en spyrja svo. Þessi fjölmiðlamaður tileinkaði sér þau vinnubrögð hjá Kastljósi Ríkisútvarpsins að skjóta fyrst en spyrja hvorki fyrr né síðar. Við sama heygarðshornið situr kappinn enn.

 

Helstu staðreyndir um útflutning Vinnslustöðvarinnar

til rússneskumælandi þjóða/ríkja

Rússland var fyrir innflutningsbannið 2015 næststærsti markaður afurða Vinnslustöðvarinnar með um 15% útflutnings félagsins, aðallega síld, loðnu og loðnuhrogn auk makríls til fjölmargra fyrirtækja.  Hvítarússland var mun neðar á listanum með um 1-2% af heildarútflutningi félagsins.  Þangað var seld síld og loðnuhrogn, aðallega til Santa Bremor og síðar annarra fyrirtækja. Á þessum tíma seldi Vinnslustöðin ekkert til Úkraínu en á síðasta ári nam útflutningur þangað tæpum 4% af heildarútflutningi félagsins.

Rússland, Kasakstan og Hvítarússland mynda tollabandalag, Custom Union.  Þar fer Rosselhoznadzor, matvælaeftirlit Rússlands, með útgáfu leyfa til innflutnings matvæla til svæðisins sem tollabandalag ríkjanna þriggja tekur til.  Leyfin byggjast annars vegar á skoðun fyrirtækjanna sjálfra með heimsóknum og úttektum á fyrirtækjunum, hins vegar með töku sýna við innflutning í landið. 

Í tvígang missti Vinnslustöðin leyfi til innflutnings.

Í fyrra skiptið, í ágúst 2012, tilkynnti rússneska matvælaeftirlitið að það hefði fundið of mikið af tilteknum gerlum í afurðum Vinnslustöðvarinnar og lokaði á innflutning afurða félagsins til aðildarríkja þriggja.  Málið kom að sjálfsögðu til kasta Matvælastofnunar hér á landi – MAST sem hafði eftirlit með Vinnslustöðinni, meðal annars fyrir hönd rússneska matvælaeftirlitsins.

Fljótlega áttuðu stjórnendur Vinnslustöðvarinnar og eftirlitsmenn MAST sig á því að eitthvað annað hékk á spýtunni en of margir gerlar. Það fékkst síðar staðfest í símtali til framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar þar sem upplýst var, í gegnum þriðja aðila, að hnútinn mætti leysa með greiðslu upp á 500.000 Bandaríkjadali (jafnvirði um 65 milljóna króna í dag)!

Þessir fjármunir hefðu að sjálfsögðu endað hjá yfirmönnum rússneska matvælaeftirlitsins og ýmsir sögðu reyndar hjá einhverjum enn hærra settum í rússneska stjórnkerfinu.

Það fylgdi sögu að fyrst myndum borga og í kjölfarið kæmi yfirlýsing frá rússneska matvælaeftirlitinu um að allt væri í lagi með afurðir Vinnslustöðvarinnar. Svar Vinnslustöðvarinnar var skýrt: NEI! 

Þegar hér var komið sneru stjórnendur Vinnslustöðvarinnar sér til sendiherra Íslands í Rússlandi, viðskiptavina sinna í Rússlandi og til Alexanders Moshinskys, kjörræðismanns Íslands í Hvítarússlandi og óskuðu eftir aðstoð.  Allir þessir aðilar áttu hagsmuna að gæta fyrir fyrirtæki sín og fyrir íslenskan sjávarútveg og útflutning.

Í stuttu máli náðist með samstilltu átaki MAST, utanríkisþjónustunnar og viðskiptavina okkar ytra að fá aflétt banni á útflutning afurða Vinnslustöðvarinnar í apríl 2013. 

Til fróðleiks skal þess getið að mánuði fyrir afléttingu bannsins var í símtali boðið að leysa málið fyrir 150.000 Bandaríkjadali (jafnvirði 19,5 milljóna króna) og viku fyrir afléttingu var tilboðið komið niður í 50.000 dali (jafnvirði 6,5 milljóna króna). 

Nei og aftur nei. Í öllu þessu ferli varð stjórnendum Vinnslustöðvarinnar ekki haggað.  Við vildum fylgja lögum og reglum og beygja okkur ekki fyrir lygum, hótunum eða kröfum um mútugreiðslur.

 

Í seinna skiptið, í september 2014, kom upp enn ný staða.  Henni er best lýst með að vitna í tölvupóst frá mér sem framkvæmdastjóra Vinnslustöðvarinnar til utanríkisráðuneytisins og sendiherra Íslands í Rússlandi 21. september 2014: 

,,Enn á ný er komin upp skringilega staða í Rússlandi.  6-7 félög í innflutningi til Rússlands hafa lagt til við íslenska útflytjendur að báðir aðilar myndi samtök þar sem þeir kaupi af íslendingum og við skuldbindum okkur til að selja þeim.  Þau fyrirtæki sem geri það ekki verði sett á bannlista af rússneskum matvælayfirvöldum.“

Á þessum tíma áttum við viðskipti við 15 fyrirtæki, flest utan þessa hóps sem hugðust mynda hinn svokallaða ,,Cartel“, einokunarhring Íslendinga og Rússa.  Á þessum tíma kröfðum við öll fyrirtæki í Rússlandi um staðgreiðslu í viðskiptum með sjávarafurðir. Það var gert í kjölfar þess að við könnuðum ársreikninga allra viðskiptavina okkar í rússneskumælandi löndum og áttuðum okkur á því að þetta voru ,,tóm“ félög á landamærum, að undanskildu félagi sem annaðist innflutning fyrir Santa Bremor til Hvítarússlands.

Þann 5. febrúar 2015 bannaði rússneska matvælaeftirlitið innflutning afurða Vinnslustöðvarinnar og nokkurra annarra íslenskra fyrirtækja til Rússlands, Kasakstans og Hvítarússlands.

Í tölvupósti til utanríkisþjónustu Íslands 18. febrúar 2015 skrifaði ég meðal annars:

,,Takk fyrir hjálpina.  Hún skiptir okkur miklu máli. Við höfum sett okkur í samband við MAST og óskað eftir að þeir aðstoði okkur auk þess sem við höfum óskað eftir aðstoð mikilvægra viðskiptavina eins og Alexanders hjá Santa Bremor í Hvítarússlandi auk annarra í Rússlandi sem eru ekki aðilar að ,,Kartelnum“....

Í tölvupósti til utanríkisþjónustunnar 26. mars 2015 lýsti ég fundi sem ég átti með fulltrúa ,,einokunarfyrirtækjanna“:

,,Ég hitti fulltrúa þeirra fyrirtækja sem vilja einoka innflutning til Rússlands í samvinnu við íslenska útflytjendur. Þeir voru mjög skýrir.

          • Þeir hefðu mjög góð tengsl við rússnesk matvælayfirvöld og gætu verndað okkur og hjálpað gegn því skilyrði að við seldum 80% af okkar uppsjávarvöru til 5 fyrirtækja.
          • Fyrirtækin voru upphaflega 8 en eru nú 5 þar sem þrjú hefðu farið á hausinn eða væru að fara á hausinn.

Ég var einnig mjög skýr. Sagði þeim að

          • Rússlandsmarkaður væri okkur mjög mikilvægur og við vildum eiga trygg og góð viðskipti þangað. Við vildum eiga góð viðskipti við fyrirtækin innan ,,hópsins“ enda væru þau mjög stórir kaupendur hjá okkur.
          • Við værum aftur á móti mjög skýr með greiðslur og greiðslutryggingar. Við seldum fyrst og fremst með fyrirframgreiðslu eða góðum tryggingum.
          • Við vildum ekki hætta viðskiptum við þau fyrirtæki sem væru utan hópsins og hefðu reynst okkur afburðavel. Greitt allt fyrirfram og á þeim nótum sem upp hafi verið lagt með.
          • Beiðni þeirra væri andstæð íslenskum lögum og alþjóða viðskiptaskilmálum. Við myndum beita hvoru tveggja fyrir okkur, íslenskum stjórnvöldum og alþjóða viðskiptasamningum.

Ég hef heyrt síðar frá Rússlandi að þeim hafi þótt lítið til fundarins koma og að ég væri ekki sérstaklega samvinnuþýður.“

 

Við óskuðum eftir aðstoð MAST og utanríkisþjónustu Íslands og kynntum málið í bréfum til íslenskra og rússneskra samkeppnisyfirvalda. Hið merkilega var að rússnesk samkeppnisyfirvöld sýndu málinu áberandi meiri áhuga en þau íslensku.

Haustið 2015 var sett innflutningsbann á fisk frá Íslandi til Rússlands. Ári síðar, í september 2016, náðist loksins með samstilltu átaki íslensku utanríkisþjónustunnar, MAST og Alexanders Moshinsky, konsúls Íslands í Hvítarússlandi, að fjarlægja Vinnslustöðina og nokkur íslensk fyrirtæki af bannlista rússnesku matvælastofnunarinnar. Þar með gátu íslensk fyrirtæki flutt á ný út fisk til Hvítarússlands.

Í þessum erfiðu málum stóðu starfsmenn íslenskrar utanríkisþjónustu, starfsmenn Matvælastofnunar – MAST, fyrrum viðskiptavinir okkar í Rússlandi og Alexander Moshinsky, kjörræðismaður í Hvítarússlandi, sig með mikilli prýði.  Þeir sem að komu gættu hagsmuna lands og þjóðar og fóru að gildandi lögum og alþjóðasáttmálum. Fyrir það erum við Vinnslustöðvarfólk afar þakklát.

 

Stóra fréttin í þessu öllu saman er hvernig rússnesk yfirvöld vinna. Við hjá Vinnslustöðinni höfum ekki greint fyrr frá gangi mála opinberlega af ótta við að rússnesk heilbrigðisyfirvöld bregðist við með því að setja Vinnslustöðina enn og aftur á svartan lista af ástæðum sem ekkert hafa með heilbrigði eða gæði afurða að gera.

Nú er allt annað uppi á teningum. Mínum viðhorfum verður best lýst með því að vitna  í tölvupóst sem ég sendi á dögunum til utanríkisþjónustunnar í kjölfar upplýsingafundar hennar um stöðuna í Úkraínu. Þann fund sat ég ásamt fleirum: 

„Við erum komin á þann punkt að við verðum að verja okkar lýðræðislega fyrirkomulag á Vesturlöndum og frjáls viðskipti þjóða á milli. Ef eitthvað er þá myndi ég styðja harðari aðgerðir og þess vegna hernaðaríhlutun. En auðvitað þurfa þær ákvarðanir að byggjast á betri þekkingu en ég hef. Einhvers staðar verður að draga línuna í sandinn.“

 

Allt það ég segi hér og skrifa hefði „rannsóknaritstjórinn“ Helgi Seljan fengið á silfurfati ef hann hefði nú haft fyrir því að hringja og leita upplýsinga. Það hélt ég reyndar að væri grunnregla í blaðamennsku, hvað þá í rannsóknarblaðamennsku!

Í staðinn kaus ritstjórinn að þvaðra með eigin hugrenningar sem undirstöðu í þessari „rannsókn“ Stundarinnar. Markmiðið er augljóslega súrra mig og Vinnslustöðina í vinaklúbb Lukasjenkos og Pútíns. Tilgangurinn helgar meðalið.

Inn í þessa fyrirfram gefnu mynd er ansi erfitt að fella staðreyndir sem hér hafa verið raktar. Þá hefði frásögn Stundarinnar misst mikinn safa og þar með var auðvitað best að ómaka sig ekki á að leita upplýsinga.

Það er annars merkilega skondin tilviljun að einmitt um þessar mundir eru nákvæmlega tíu ár liðin frá því Helgi Seljan og Sigmar Guðmundsson völdu að heiðra Vinnslustöðina með heilum Kastljósþætti í Ríkisútvarpinu þar sem fullyrt var að fyrirtækið hefði skilað lægra verði fyrir fisk sem það seldi í gegnum sölufyrirtæki sín og greiddi sjómönnum sínum því lægri laun en eðlilegt væri, skilaði ekki réttmætum gjaldeyri heim og skyti þannig tekjum undan skattlagningu, annars vegar með lægri tekjuskatti og hins vegar með lægri veiðigjöldum.

Niðurstaða Kastljóss: Vinnslustöðin brýtur gegn (þágildandi) gjaldeyrislögum.  

 

Allt var þetta rakalaus þvættingur, hrein og klár lygi. Það lá fyrir strax en upplýstist síðar þegar Seðlabankinn aflétti leynd af gögnum sem Helgi Seljan og Sigmar Guðmundsson höfðu í höndum, samantekt Verðlagsstofu skiptaverðs sem sýndi að Vinnslustöðin, með sölufyrirtækjum sínum erlendis, skilaði 50-80 krónum hærra verði til sjómanna sinna en fékkst á uppboðsmarkaði í Þýskalandi árin 2008 og 2009!

Afleiðing þessa fréttaflutnings Kastljóss var meðal annars sú að stjórn og stjórnendur Vinnslustöðvarinnar höfðu stöðu sakborninga hjá Sérstökum saksóknara í fjögur ár án þess að vita af því sjálfir!

Málið var að sjálfsögðu fellt niður eftir rannsókn enda ekkert þar athugavert. 

Kastljós fékkst aldrei til að leggja fram svo mikið sem vott af sönnunum fyrir ásökunum sínum, ekki einu sinni eftir að lögreglustjóri var settur yfir Ríkisútvarpið í Efstaleiti.

Vinnslustöðin bíður enn eftir að Ríkisútvarpið biðji fyrirtækið afsökunar á afar grófum og rakalausum ásökunum. Það gerist ekki. Breska ríkisútvarpið – BBC er hins vegar vant að virðingu sinni. Það kærir sig ekki um að hafa lygamerði í vinnu, heldur fleygir þeim á dyr ef upp um þá kemst og biðst afsökunar á misgerðum þeirra. Í september 2021 baðst BBC þannig velvirðingar á viðtali fréttamanns sem laug sig inn á viðmælanda sinn í nóvember 1995, það er að segja 26 árum áður(!). Málið var síðan rannsakað ofan í kjölinn og niðurstaðan varð sú að BBC greiddi miskabætur vegna framferðis fréttamannsins. Þetta var upplýst núna í mars 2022.

Breska útvarpið tekur þannig fulla ábyrgð á starfsfólki sínu en það gerir Ríkisútvarpið ekki. Um ábyrgð Stundarinnar þarf ekki að fjölyrða.