Stefnir í spennandi helgi!
21/02/25
Í gær gaf Hafrannsóknastofnun út ráðgjöf í loðnu upp á 8.589 tonn sem er lægsta úthlutun í sögu loðnuveiða á Íslandi (fyrir utan 0 árin). Af þessari úthlutun fær Ísland 4.683 tonn sem eru 54,5% af heildinni. Ríkið dregur svo 5,3% frá sem verða boðin upp. Þannig að íslenskar útgerðir fá úthlutað 4.435 tonn sem er 51,6% af heildinni. Af því er VSV (og Huginn) með 546 tonn. Að sögn Sindra Viðarssonar, sviðsstjóra uppsjávarsviðs er Gullberg VE að græja sig og halda líklega á sjó í nótt eða í fyrramálið.
,,Við fengum fréttir af loðnu í upphafi vikunnar utan við Þorlákshöfn, það er spurning hvað sú loðna er komin langt vestur eftir. Einnig er spurning um hvernig ástandið er á henni þ.e.a.s. hrognafylling, hrognaþroski, hrygnuhlutfall og fleira. Síðan vitum við af loðnu norður af Horni sem Árni Friðriksson mældi í síðustu viku, spurning hvernig ástandið er á henni." segir Sindri og bætir við að við séum komin ansi seint inn í vertíðina upp á að heilfrysta loðnu. ,,Þannig að við höfum ekki marga daga í viðbót allavega hvað varðar loðnuna sem er við Reykjanesið. Þetta stefnir í spennandi helgi," segir Sindri að endingu. Hér að neðan má sjá yfirlit yfir aflaheimildir VSV í loðnu síðan 2015.
