Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Stefan Ingi Ads Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Stefán Ingi Jónsson útskrifaðist á dögunum úr skipstjórn frá Tækniskólanum. Einnig fékk Stefán viðurkenningu frá SFS fyrir framúrskarandi árangur í skipstjórnargreinum. Þá var hann með hæstu einkunn í útskriftarhópnum.

Stefán Ingi hefur verið á námstyrk hjá Vinnslustöðinni frá því vorið 2022 og hefur hann sinnt námi meðfram vinnu. Hann er í dag stýrimaður á Kap VE og hefur leyst af á uppsjávarskipum á sumrin auk þess sem hann gengur í önnur störf á skipum VSV.  

Stefán Ingi - sem er 31 árs Vestmannaeyingur - segir í samtali við Vinnslustöðvar-vefinn að reynsla hans frá Tækniskólanum hafi nýst honum vel í starfi á skipum VSV.

Spurður um hvernig hafi gengið að sinna námi meðfram vinnu segir hann að það hafi gengið ágætlega. „Skólinn gekk fyrir og ég gat alltaf hoppað í land þegar ég þurfti þess.“

En hvaða áskorunum hefur Stefán staðið frammi fyrir við að samræma nám og vinnu. „Maður verður bara að setjast niður að læra þegar tími gefst út á sjó þótt viljinn sé ekki alltaf fyrir hendi. Annars safnast þetta bara upp, þá þarf að taka frítúr til að vinna upp letina.“

Fátt skemmtilegra en að draga full net af fiski

Eins og áður segir fékk Stefán Ingi viðurkenningu frá Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi fyrir framúrskarandi árangur í skipstjórnargreinum. Aðspurður um hvernig námið í skipstjórn hafi haft áhrif á hann svarar hann að það hafi haft fín áhrif. „Ég get allavega farið að sigla. Ég gerði bara allt sem sett var fyrir í skólanum og svo var örugglega smá heppni með í því líka.“

Er talið berst að því hvernig það sé að vera stýrimaður á Kapinni, og hverjar séu stærstu áskoranirnar segir hann að hann hafi gaman að því. „Það er fátt skemmtilegra en að draga full net af fiski. Það gengur allt hér eins og vel smurð vél.“ segir hann en þess má geta að hann er einmitt í veiðiferð þegar blaðamaður er að ræða við hann.

Stefán Ingi útskrifast frá Tækniskólanum.

Alltaf gott að vera með réttindi

Aðspurður um hvernig hann sjái framtíð sína í skipstjórn og á sjó, segir Stefán Ingi að stefnan sé sett á að verða skipstjóri hjá Vinnslustöðinni einn daginn.

Enn hvaða ráð myndi hann gefa öðrum sem eru að hugsa um að fara í skipstjórnarnám eða að starfa á sjónum. „Það er um að gera að prófa sjómennskuna en hún er ekki fyrir alla. Byrja í skóla sem fyrst, þetta er ekkert mál og alltaf gott að vera með réttindi alveg sama hver þau eru.“

Um styrktarsamninga VSV

Styrktarsamningur felur í sér að Vinnslustöðin styrkir nema fjárhagslega og tryggir nema vinnu með skóla og á sumrin við starf tengt námi. Að námi loknu skuldbindur nemi sig til að starfa hjá Vinnslustöðinni í tiltekinn tíma að loknu námi. Ef styrkþegi hættir námi eða hættir hjá Vinnslustöðinni þá þarf hann að endurgreiða styrkinn til baka samkvæmt samningi þar um. Frekari upplýsingar veitir Lilja Björg Arngrímsdóttir starfsmannastjóri á lilja@vsv.is eða í síma 488-8000.