Fara á efnissvæði
World Map Background Image
IMG 7399 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Það var heldur betur góð stemning í matsal Vinnslustöðvarinnar á föstudaginn sl.. Þar var hið árlega þorrablót haldið til heiðurs fyrrverandi starfsmönnum VSV og mökum þeirra. Góð mæting var á blótið, á sjöunda tug gesta mætti og átti saman notalega kvöldstund. 

Sigurgeir Brynjar, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar ávarpaði gesti og rakti það sem efst er á baugi í starfsemi fyrirtækisins auk þess að fara yfir hvað framundan er. Því næst hélt Helgi Bernódusson skemmtilegt erindi um sr. Jóhann Hlíðar. Að endingu mætti svo Sæþór Vídó með gítarinn og tók nokkur lög.

Þór Vilhjálmsson, fyrrverandi starfsmannastjóri Vinnslustöðvarinnar hefur komið að skipulagningu blótsins allt frá upphafi. Hann segir í samtali við Vinnslustöðvar-vefinn að þetta sé skemmtileg hefð og gaman að sjá hve vel sé mætt af eldri félögum.

„Það er svo sniðugt að fólk bíður eftir þessu kvöldi. Fólk sem hefur unnið lengi saman og hittist ekki lengur svo mikið. Þarna eru rifjaðir upp gamlir og góðir tímar. Virkilega ánægjuleg kvöldstund ár hvert,” segir Þór.

Borðin svignuðu hreinlega undan dýrindis þorramat og drykkjarföngum, líkt og sjá má í myndasyrpunni hér að neðan.