Sjómennskan blasti við Óskari Þór eftir starfskynningartúra á Breka VE
„Ég minnist þess ekki að nokkru sinni hafi hvarflað annað að mér en að gera sjómennsku að ævistarfi. Auðvitað var ég sem peyi í kringum pabba og afa í útgerðarstússi þeirra og kynntist engu öðru. Það þurfti ekki einu sinni að ýta við mér til að ég færi sjómannaskólann og kláraði hann!“
Óskar Þór Kristjánsson, skipstjóri á Þórunni Sveinsdóttur VE, tók sér fáeinar mínútur til að horfa um öxl símleiðis á dögunum þegar skipið var á leið út úr hafnarmynninu í Eyjum eftir hressilegan bræluhvell og landlegu.
„Við stefnum vestur og könnum hvort við náum þar ekki kola, ýsu og þorski úti af Látrabjargi eða í grunnkantinum. Það er alla vega planið.
Svo styttist mjög í að hlýni í kringum okkur og lífið verði áberandi afslappað að degi sem nóttu. Áhöfnin á Þórunni Sveins fer til Tenerife ásamt mökum og þar verðum við á sjómannadaginn í góðu yfirlæti. Það verður nú eitthvað.
En svo við botnum söguna af upphafinu þá get ég sagt þér að þegar ég var tólf ára í sjötta bekk grunnskólans í Vestmannaeyjum var starfskynningarvika. Ég valdi að kynna mér sjómennsku og fór á Breka VE í loðnutúr með Sævari heitnum Brynjólfs.
Í níunda bekk var líka starfskynningarvika. Ég valdi sjómennsku og fór aftur á Breka VE með Sævari og Hermanni í trolltúr sem tók tíu daga.
Sumarið eftir vorum við Hafliði, sonur Sævars, saman um einn hlut á Breka.
Eftir þetta varð ekki aftur snúið. Sjómennskan togaði í mig. Það er líka svo gaman að vera til sjós!“
Þegar talið barst að því hvar Óskar hefði alið manninn á starfsferlinum romsaði hann upp úr sér nöfnum á skipum, bátum, samferðamönnum og ártölum. Margfalt erfiðara var að púsla öllu því upp í trúverðuga atburðarás en að ráða myndakrossgátur dagblaða um jólin. Til þrautavara varð viðmælandinn að stikla á stóru og tala hægt með kúnstpásum svo hægt væri að ná niður einhverju vitrænu til skrásetningar.
„Ég byrjaði til sjós á Bylgjunni VE með Matta föðurbróður mínum og fór þaðan á Sindra VE með Helga Ágústs og Gumma Lalla. Var aðeins á Klakki VE með Helga Ágústs.
Á árunum 1985-1986 reri ég með pabba á spýtu-Emmunni [eikarbáti sem smíðaður var 1949 og úreltur 1986].
Nýja Emman kom frá Póllandi í maí 1988 og á henni var ég þá um sumarið og svo áfram, eftir að ég kláraði stýrimannaskólann, allt til aldamóta þegar foreldrar mínir seldu útgerðina. Pabbi, Kristján Óskarsson, var skipstjóri og framkvæmdastjóri Emmu ehf. og mamma, Emma Pálsdóttir, útgerðarstjóri.
Ég var í eitt ár á Bergi VE á kolmunna og loðnu og náði svo í Bergey VE til Gdansk í Póllandi. Þá var ég eitt ár á Heimaey VE með Bigga Huldu, frænda mínum, eða þangað til nýja Þórunn Sveinsdóttir kom og var tekin í gagnið. Áður var ég í ein fjögur ár á gömlu Þórunni en hef verið á þeirri nýju frá upphafi. Hún er meiriháttar skip og verður endastöðin mín.“
– Ertu að gefa í skyn að þú spáir í að láta gott heita fljótlega?
„Nei, nei. Ekki nema Binni Vinnslustöðvarforstjóri taki upp á því að reka mig! Ég á nóg inni og sýni ekki á mér fararsnið. Verð 58 ára í september og ætla rétt að vona að ég eigi inni nokkur góð ár. Að minnsta kosti stendur ekki annað til.“
– Hvernig varð þér við tíðindin um að Vinnslustöðin hefði keypt Ós, útgerð Þórunnar Sveinsdóttur, og fiskvinnslu Leo Seafood?
„Mér brá og ég var ekki hress með að heyra það. Ég væri að ljúga ef ég svaraði öðru vísi. En svona er bara lífið. Ég hafði oft sagt við sjálfan mig og trúað því að þetta væri sú fjölskylduútgerð í Vestmannaeyjum sem lengst yrði haldið gangandi og aldrei seld. Ég skil hins vegar ástæðuna fyrir því að þetta gerðist. Frændi minn er að fara í annað og stærra verkefni, mjög áhugavert, laxeldi í Vestmannaeyjum.
Sjálfur hafði ég spáð í að vera á sjó kannski eitt til tvö ár í viðbót og fara þá í land til að vinna fyrir útgerðina í sambandi við veiðarfæri og fleira.
Enginn veit ævina fyrr en öll er en nú ég held bara mínu striki.“
– Og svo er það sumarið. Áttu þér áhugamál til að sinna utan sjómennskunnar?
„Áhugamál! Hvað er nú það? Ég hef alltaf gaman að því að fara út og skemmta mér eða gleðjast yfirleitt í góðum hópi. Telst það vera áhugamál?
Golf, já. Ég fikta aðeins í því en satt að segja er ég alltof latur við golfið.
Ætli við róum ekki bara í sumar en kannski verður stopp í ágúst vegna þess að kvótar klárast. Það vantar alltaf kvóta.
Svo er það þjóðhátíðin. Þar læt ég mig ekki vanta frekar en fyrri daginn. Hún er toppurinn á tilverunni.“
- Óskar Pétur Friðriksson myndaði nafna sinn skipstjórann um borð í Þórunni Sveinsdóttur á dögunum og síðan skipið á útstíminu. Á efstu myndinni sést að afinn er nálægur í brúnni, Óskar Matthíasson skipstjóri og útgerðarmaður á Leó VE-400.
- Óskar Pétur lumaði líka á myndum af kappanum í þjóðhátíðargírnum. Beint lá við að sýna líka þá hliðina á manninum.
- Á mynd nr. 5 eru Kristján Valur (sonur Óskars Þórs), Óskar Þór og Birgir Sveinsson, skipstjóri á Vestmannaey. Þar fyrir neðan eru Birgir Davíð (sonur Óskars Þórs) og Óskar Þór. Enn neðar eru Óskar Þór, Huginn Sær Grímsson og Baldvin Þór Sigurbjörnsson. Þessi glaðbeitti lengst til vinstri er glaðbeittur en svartsýnn senuþjófur. Sá þarf sólgleraugu í myrkri.
- Neðsta myndin þarfnast ekki skýringa: Glaður á góðri stundu ...