Fara á efnissvæði
World Map Background Image
1 IMG 0459 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Hafist var handa í dag við að tengja nýjan sjóhreinsibúnað við vatnskerfi landvinnslunnar Vinnslustöðvarinnar. Tækin eru í gámi sem komið var fyrir á sínum stað á athafnasvæðið fyrirtækisins og verða tekin í gagnið innan tíðar. Þeim er ætlað að breyta sjó í eins hreint drykkjarvatn og unnt er yfirleitt að fá!

„Við leggjum rafmagn að gámnum og tengjum við hann dælur og fleira. Þetta er í sjálfu sér ekki mikið mál en tekur einhverja daga,“ segir Trausti Hjaltason framkvæmdastjóri Hafnareyrar. 

Sjó er dælt í öflugt síukerfi í gámnum og þar í gegn kemst einungis vatnssameindin H2O. Eftir í síum verða óhreinindi af öllu tagi, bakteríur, veirur og yfirleitt allt annað en tært vatnið! 

Afköst gætu orðið allt að 600 tonnum á sólarhring sem fullnægir þörfum Vinnslustöðvarinnar fyrir vatn til starfsemi sinnar. 

Willum Andersen, tæknilegur rekstrarstjóri VSV, samdi við fyrirtæki í Hollandi um kaup á þremur sjóhreinsigámum og þessi er sá fyrsti sem kemur til landsins. Ísfélagið fær annan gám til sinna þarfa.

Ónefndur gárungi í Eyjum varpaði fram þeirri spurningu hvort það væri einungis fyrra þrep í þessu merkilega ferli að breyta sjó í vatn? Myndi Vinnslustöðin ekki fara alla leið í síðara þrepinu og breyta hreina vatninu í vín? 

Ekkert liggur fyrir í þeim efnum en praktískt gæti það verið þegar mikið liggur við líkt og forðum daga í brúðkaupi í þorpinu Kana í Galíleu. Vínið þraut í veislunni en brúðhjónin voru svo heppin að einn gestanna gat með mætti sínum breytt vatni í vín og þurfti ekki hollenskan græjugám til. Sá hét Jesús sonur Guðs og bjargaði samkomunni.

Trausti Hjaltason tók í dag meðfylgjandi myndir af sjóhreinsigræjunni og harkaliðinu sem stúderaði hana til undirbúnings tengingu. Hér má kenna pípulagningarmennina Guðna og Bjarka hjá Miðstöðinni, Unnar Hólm bræðslustjóra, Óðinn verkstjóra Hafnareyrar, Björgvin Björgvinsson hjá PZ og Vinnslustöðvarmanninn Guðna Ingvar.

2 IMG 0457
4 IMG 0455
3 IMG 0463
5 IMG 0456