Síldarsæla á aðventu
Hefð er orðin fyrir því að bjóða starfsmönnum, fyrrum starfsmönnum og velunnurum Vinnslustöðvarinnar til síldarveislu á aðventunni. Er þetta í fimmta skiptið sem slíkt er gert og mælist þetta afskaplega vel fyrir.
Það eru þau Ingigerður Helgadóttir og Benóný Þórisson sem bera hitann og þungann af skipulagningu veislunnar. Þau sjá um að verka jólasíld Vinnslustöðvarinnar auk þess að skiptast á síldarfötum við önnur uppsjávarfyrirtæki, en í veislunni er boðið upp á jólasíld víða að.
Á boðstólnum þetta árið var auk síldarinnar frá VSV, síld frá Ísfélaginu í Vestmannaeyjum, Ísfélaginu á Þórshöfn, Marhólmum, Eskju, Síldarvinnslunni, Skinney-Þinganesi, Brim og Loðnuvinnslunni. Meðlætið var svo kartöflur, rúgbrauð egg og sinnep. Sannkallað lostæti!
Adda í London þökkuð góð störf
Á síldakvöldinu var Adda í London (Ísleifur Arnar Vignisson) afhentur þakklætisvottur fyrir góð störf í áratugi fyrir fyrirtækið. Það var Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri sem kvaddi Adda með hlýjum orðum en Addi lauk störfum formlega í vor hjá Vinnslustöðinni.
Addi sá síðustu árin um að kaupa inn umbúðir, vörubretti og ýmsar fleiri rekstrarvörur fyrir Vinnslustöðina. En áður var hann verkstjóri en vann lengst lengst af í frystitækjum Vinnslustöðvarinnar og þar áður Fiskiðjunnar. Hann byrjaði í Fiskiðjunni 1971, þá 17 ára gamall. Addi gerði upp starfsferillinn og lífshlaupið í viðtali hér á Vinnslustöðvar-vefnum í vor þegar hann lét af störfum. Hér má lesa viðtalið við hann.
Myndasyrpu frá síldarveislunni má sjá hér að neðan.