Saltfiskur frá Eyjum skapar jólastemningu í Portúgal
„Íslenskur saltfiskur er hátíðarmatur hér og sjálfsagður aðalréttur á jólaborðinu.
Þetta er svo gróið í portúgalska menningu að við lærum strax í barnæsku að meta saltfisk. Sá íslenski er einfaldlega bestur!“ segir Nuno Araújo, sölustjóri Vinnslustöðvarinnar í Portúga.
Hann selur hér viðskiptavini saltfisk frá VSV til jóla (neðri mynd).
Á minni myndinni til hægri er Araújo í miðið glaðbeittur með félögum sínum að undirbúa kynningu á VSV-fiski. Alltaf gleði, enda selja menn íslenska gæðavöru að sjálfsögðu með bros á vör!
About fish Portugal, markaðs- og sölufyrirtæki Vinnslustöðvarinnar, stendur að kynningarverkefni fyrir saltfisk VSV núna á síðasta fjórðungi ársins og óhætt er að slá því föstu strax að þar hafi tekist til langt framar vonum.
Í októbermánuði var opnuð verslun á vegum About fish í Oliveira de Azeméis, 20 þúsund manna bæ 35 km suður af Portó og tilkynnt að hún yrði rekin í tilraunaskyni til áramóta. Sú tímasetning er hreint engin tilviljun því Portúgalir byrja að kaupa inn saltfisk til aðventu og jóla í október. Með versluninni gefst neytendum annars vegar kostur á að kaupa vöruna beint af fulltrúum seljenda í Vestmannaeyjum en hins vegar fá fulltrúar VSV/About fish milliliðalaust tækifæri til að hitta neytendur og kynnast viðhorfum þeirra og óskum.
Íslenskur saltfiskur skör hærra í gæðum en sá norski
Í versluninni eru líka kynntar og seldar matvörur fyrirtækja sem kaupa saltfisk af VSV og nota til eigin framleiðslu.
Araújo sölustjóri og samstarfsfólk hefur kynnt VSV-saltfiskinn á bæjarhátíðum í héraðinu, efnt til námskeiðs fyrir matreiðslumenn, boðið stórkaupendum ókeypis heimsendingu og stuðlað yfirleitt að því að breiða út fagnaðarboðskap saltaðs þorsk á svæðinu. Sömuleiðis selja þeir saltaða sundmaga í plastfötum (líffæri sem fiskar nota til að stjórna dýpt sinni í sjó eða vatni - sjá mynd til vinstri). Sundmagar þykja mikið lostæti á þessum slóðum en eru ekki beinlínis ofarlega óskalista íslenskra neytenda nema ef til vill sem súrsaðir í einstaka matartrogum á þorra. Þannig birtist nú matarmenningarmunur þjóða á stundum.
- Hátíðarjafna Portúgala er einföld; hin heilaga matarþrenning sem hvílir nánast á stalli trúarbragða: saltfiskur + ólífuolía + rauðvín = jól.
Norskur saltfiskur er mjög víða á borðum í Portúgal en sá íslenski þykir mun betri og fyrir gæðin borga viðskiptavinirnir. Í kynningu About fish er framar öðru lögð áhersla á að kynna íslenskangæðafisk, beina með öðrum orðum sjónum kaupenda að íslenskum uppruna vörunnar.
Ólíkir markaðir í Portúgal og á Spáni
„Nuno Araújo og félagar standa sig afar vel í markaðssetningunni. Þeim tekst að vekja mikla athygli á saltfiskinum okkar og skapa verkefninu aðlaðandi og skemmtilega umgjörð,“ segir Sverrir Haraldsson, sviðsstjóri bolfiskssviðs Vinnslustöðvarinnar.
„Portúgal er aðalmarkaður okkar fyrir saltfisk. Við sérhæfum okkur í að sinna kaupendum og neytendum þar og hlusta á óskir þeirra og viðhorf. Kröfur saltfiskmarkaðarins í Portúgal eru yfirleitt mjög ólíkar þeim sem gerður eru á Spáni.
Portúgalir vilja þurrkaðan og vel staðinn saltfisk til að hann fái áferð og bragð sem þeir sækjast eftir. Spánverjar kæra sig ekkert um þurrkaðan saltfisk en leggja mun meiri áherslu á útlitið, að þorskurinn sé hvítur og fínn. Portúgalir eru á hinn bóginn ekki uppteknir af því og ekki þýðir að bjóða þeim sprautusaltaðan þorsk. Það er því verulegur munur á matarsmekk grannþjóðanna tveggja að þessu leyti.“
Portúgalski markaðurinn miklu stærri en sjálft Portúgal
„Markaðurinn fyrir „portúgalska saltfiskverkun“ er annars út af fyrir sig miklu stærri en sem nemur sjálfu Portúgal. Í Suður-Ameríku er til dæmis fólk í stórum stíl af portúgölskum uppruna og í Bandaríkjunum sömuleiðis.
Portúgalir elda saltfisk á ýmsan hátt en hann er yfirleitt soðinn með ákveðnu lagi sem jólamatur og mikið haft við í meðlæti. Að sjálfsögðu er drukkið rauðvín með, það tilheyrir. Í Portúgal eru framleiddar ótal tegundir sérlega góðra rauðvína.
Portúgalir hafa gengið í gegnum miklar efnahagsþrengingar með tilheyrandi samdrætti og atvinnuleysi. Ástandið hefur heldur lagast og stefnir upp á við. Fátt gleður þá meira um jól en að fá góðan saltfisk á veisluborðið. Þá meina ég ekki norskan fisk heldur gæðavöru frá Íslandi, helst auðvitað frá Vinnslustöðinni!“
Portúgalskur æskulýður kann gott að meta!
Söluborð í verslun About fish.