Rúgbrauð uppselt í Eyjum jólasíldarhelgina miklu
Síldarunnendur í Vinnslustöðinni glöddust svo um munaði á aðventusíldarkvöldinu mikla sem nú var efnt til í annað sinn að frumkvæði Ingigerðar Helgadóttur flokksstjóra og Benónýs Þórissonar framleiðslustjóra á uppsjávarsviði VSV.
Inga & Bennó tóku upp á því í fyrra að senda fötur með jólasíld VSV til annarra fyrirtækja í uppsjávarveiðum og uppsjávarvinnslu og fengu til baka síldarfötur frá þeim. Síðan var slegið upp veislu í Vinnslustöðinni með hlaðborði síldar héðan og þaðan.
Uppátækið spurðist út og fregnir bárust nú af hliðstæðum jólasíldarsamkomum í öðrum fyrirtækjum. Inga og Bennó virðast því hafa skapað aðventuhefð sem örugglega verður við haldið og aukið við frekar en hitt, alla vega í Vinnslustöðinni!
VSV-síldin var og verður auðvitað alltaf í öndvegi, skárra væri nú. Í ár var líka boðið upp á síld frá Ísfélagi Vestmannaeyja, Búlandstindi á Djúpavogi, Brimi á Vopnafirði, Eskju á Eskifirði, Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði, Síldarvinnslunni í Neskaupstað og Skinney-Þinganesi á Höfn.
Gestir komust ekki hjá því að bera saman bragð, áferð og gæði vörunnar en heimildarmenn eru ófáanlegir til að gefa upp palladóma einstaka palladóma, til þess að halda friðinn og stofna ekki til deilna fyrir opnum tjöldum – hvað svo sem það nú þýðir.
Öllum síldarunnendum í Vinnslustöðinni var boðið til veislunnar og margir fyrrverandi starfsmenn létu sjá sig líka. Þetta var unaðsleg stund, reyndar svo mjög að menn lýstu yfir því yfir að borðhaldi loknu að þeir hlökkuðu þá þegar til síldarveislunnar að ári.
Helgin sem í hönd fór varð svo ein allsherjar síldarmessa í heimahúsum í Vestmannaeyjum því bæði Ísfélagið og Vinnslustöðin afhentu samtímis jólasíld í fötuvís með þeim afleiðingum að allt rúgbrauð seldist upp í bænum og mjög gekk á birgðir smjörs og kartaflna.
Uppsjávarfiskurinn gljáfægði reyndi þannig mjög á fæðuöryggi Vestmannaeyinga og ljóst að kaupmenn, bakarar og kartöflubændur láta ekki taka sig aftur í bælinu. Þeir munu vakta nákvæmlega afhendingu jólasíldar 2023 til þess að ekkert skorti sem þarf til að gera síldarmáltíð fullkomna á jólaföstunni.