Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Screenshot 2024 01 18 At 14.21.45 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

„Orkan í Vestmannaeyjum á vel við mig og náttúrufegurðin höfðar til mín. Ég kom hingað fyrst sem ferðamaður og fann að hér biði mín ævintýri, tækifæri til að prófa eitthvað alveg nýtt í lífinu. Eyjarnar toguðu í mig,“ segir Daniela Götschi, starfsmaður í fiskvinnslu hjá Vinnslustöðinni. Hún er Svisslendingur að ætt og uppruna og ólst upp í Männedorf, tólf þúsund manna bæ við Zürich vatn. Þar á hún foreldra á efri árum, systur og systurdætur og fer reglulega á æskuslóðirnar til að heilsa upp á ættingja og vini – og hlaupa.

„Fyrir þremur árum hljóp ég heilt fjallamaraþon í fyrsta sinn og náði því svo að láta rætast draum um að klára maraþon með pabba, rúmlega sjötugum, í þekktu víðavangshlaupi sem náði upp í um 2.000 metra hæð í Sviss. Það var mikil reynsla og ein magnaðasta upplifun ævinnar, eitthvað sem aldrei gleymist.

Heimaey er annars góður staður til að hlaupa á og æfa sig.“

Airwaves og Eistnaflug ár eftir ár

Daniela kom fyrst til Íslands sem venjulegur túristi árið 2003. Nokkrum mánuðum síðar birtist hún aftur, þá til að fara á Airwaves-tónlistarhátíðina í Reykjavík. Hún átti eftir að koma nokkrum sinnum á þessa hátíð og varð eiginlega Íslandsvinur á Airwaves.

Eftir að hún settist að í Eyjum fór hún nokkrum sinnum á þungarokksamkomuna Eistnaflug í Neskaupstað. Grunnt er því á tónlistargenum.

„Já, ég var býsna villtur rokkari og er enn rokkari í hjartanu en hef róast umtalsvert! Vestmannaeyjar stuðluðu að því að ná mér niður og veita mér frið í sálinni.

Heima í Sviss var ég eins langt frá fiski og fiskvinnslu og hugsast getur, ég hafði ekki einu sinni bragðað neitt úr sjó. Þá var ég í draumastarfi við að bera út póst og naut þess mjög.

Mér var sagt strax í fyrstu ferð hingað að ef ég vildi kynnast Íslendingum og íslenskri menningu ætti ég að fá mér vinnu í fiski. Svo höguðu örlögin því til árið 2006 að ég vildi breyta alveg um umhverfi og þá kom Ísland upp í hugann. Ástæðurnar voru persónulegar annars vegar og ævintýraþrá hins vegar.

Árið 2007 kom ég til Vestmannaeyja, vann fyrst í fiski í Pétursey í fjóra mánuði og fór þaðan til Vinnslustöðvarinnar. Keypti meira að segja hús í Eyjum til að búa í og hér er ég enn.“

Alþjóðasamfélagið í Eyjum

„Hér er fínt að vera og ég hef kynnst vel íslensku samfélagi og menningu. Margt er öðru vísi en ég vandist heima í Sviss en áhugavert og gaman. Hins vegar bjóst ég ekki við því í upphafi að ég myndi líka lifa og starfa í alþjóðlegu umhverfi í Vestmannaeyjum. Það varð samt staðreynd. Hér starfar fólk sem kemur víðs vegar að úr veröldinni, með fjölbreyttan bakgrunn og menningu sem gefur mér mikið að kynnast.

Ég bý vissulega í Vestmannaeyjum og á rætur í Sviss en þegar öllu er á botninn hvolft býr hið raunverulega heimili innra með manni sjálfum. Það er tilfinning og hugarástand burt séð frá því hvar maður er staddur hverju sinni.“

  • Flestar myndirnar eru teknar af Daníelu í karfa- og humarvinnslu í Vestmannaeyjum en sú efsta er af þeim feðginum og hlaupafélögum í Sviss.
1 Img 3006 1
2 Vsv D2 20771
3 Vsv D2 20351
4 Vsv 2155
5 92663097 221175792307237 4917380586303127552 N