Örlög skákuðu strák af siglfirsku Möller-kyni til Vestmannaeyja
„Vertíðin hefst yfirleitt með látum í febrúar en í ár hefur hún verið jafnari alveg frá áramótum. Þetta er gósentíð, botnlaus keyrsla með skiptipásum frá morgni til kvölds svo vélar í vinnslunni stoppi aldrei.
Núna snýst lífið um að vinna, borða og sofa. Ég mæti um sjöleytið á morgnana og kem heim undir kvöldmat. Borða, fer í sturtu og leggst upp í rúm með spjaldtölvu til að horfa á fréttir í sjónvarpi. Svo lognast ég út af og frú Ólöf sér um að hirða af mér tölvu og gleraugu undir nóttina.“
15 ára skólastrákur í sumarvinnu í Eyjum
Bassi er verkstjóri í saltfiskframleiðslu Vinnslustöðvarinnar og tekur fram að lýsingin á vinnudeginum eigi við núna, þegar komið sé fram í síðari hálfleik á starfsferlinum. Áður mætti hann fyrr á morgnana og vann jafnan lengur fram eftir. Á vertíðinni er líka unnið á laugardögum en reynt er eftir megni að halda sunnudagana heilaga. Samt talar hann um að hafa „hægt á sér“ við vinnu í samræmi við aldur.
Bassi hóf störf hjá Vinnslustöðinni fyrir einum áratug eða svo, fyrst sem verkstjóri í frystingu en síðar í saltfiski. Saltfiskvinnsla var reyndar örlagavaldur í lífinu. Hann kom nefnilega fyrst til Vestmannaeyja sem 15 ára skólastrákur frá Reykjavík til að vinna hjá föðurbróður sínum og verkstjóra Ísfélagsins, Kristni T. Möller. Sumarlífið varð saltfiskur í Eyjum næstu árin en svo lágu leiðir þeirra Ólafar Helgadóttur saman. Hún er inngróin Eyjakona og þar með kom að því að Bassi fór ekki til baka suður um haustið.
Einn af mörgum Möllerum frá Sigló
Náunginn sem ber gælunafnið Bassi heitir fullu nafni Kristján Lúðvík Möller og nöfnin skapa ósjálfráð hugrenningatengsl til Siglufjarðar. Þar er þjóðþekkt útungarstöð Möllera og tengsl við Alþýðuflokkinn eru gjarnan nefnd í sömu andránni en þau teljast samt ekki algild.
Enda kemur á daginn að einmitt á Siglufirði eru rætur Bassa og hann var skírður í höfuð afa síns, Kristjáns Lúðvíks Möller, yfirlögregluþjóns á Siglufirði.
Faðir Bassa var William Thomas Möller kennari (f. 1914, d. 1965) og í systkinahópi Williams var Jóhann Georg Möller, verkstjóri Síldarverksmiðju ríkisins og bæjarfulltrúi krata á Siglufirði. Þekktust barna Jóhanns Georgs Möllers eru Kristján L. Möller, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, og Alma D. Möller, landlæknir og mögulegur frambjóðandi til embættis forseta Íslands í sumar, ef marka má vangaveltur spekinga í þjóðmálaumræðunni.
Farðu og kokkaðu!
Bassi fæddist og óx úr grasi á Skógum undir Eyjafjöllum. Faðir hans réð sig til kennslu í Skógaskóla haustið 1950, á öðru starfsári skólans. Hann varð bráðkvaddur 19. júlí 1965, 51 árs að aldri. Eiginkona hans, Guðrún Sigurðardóttir, frá Ytri-Sólheimum í Mýrdal (f. 1924, d. 2020), bjó ásamt börnum þeirra áfram á Skógum til 1976. Þá fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur.
William og Guðrún áttu fjögur börn saman: Jónu Sigurbjörgu, Kristján Lúðvík, Sigríði Erlu og Willu Guðrúnu. Þá gekk William Þorgerði, dóttur Guðrúnar, í föðurstað.
Yngsta dóttirin, Willa Guðrún, fæddist fimm vikum áður en William féll frá og hlaut skírn við líkbörur föður síns.
„Þú nefnir réttilega kratatengsl Möller-ættarinnar en þau áttu ekki við um pabba. Mamma sagði mér að hann hefði alltaf verið sjálfstæðismaður, alveg heiðblár í gegn! Hún hélt fjölskyldunni saman, fluttist síðar frá Skógum og skilaði okkur vel og örugglega til fullorðinsára með dugnaði sínum og elju.
Ef einhverjir eiga fálkaorður skilið eru það mæður sem missa eiginmenn sína og sitja eftir með skara barna sem þær síðan framfleyta og koma til manns.
Ég var í skóla í Reykjavík á vetrum en Kristinn frændi tók mig síðan til sín í saltfiskvinnslu í Vestmannaeyjum. Ég bjó hér í verbúð og frændi minn líka fyrsta sumarið, 1975, til að ábyrgjast mig allan sólarhringinn.
Árið 1979 lauk ég skólagöngunni og flutti alveg til Vestmannaeyja, þökk sé blómarósinni Ólöfu. Það var gæfuspor í öllum skilningi enda hvergi betra að vera en í Eyjum.
Ég fór á sjó hjá Ísfélaginu 1983 og var á ýmsum skipum þess í þrjá áratugi, lengst af á uppsjávarskipunum Gígju, Antaresi og Guðmundi á loðnu og síld en líka á Álsey, Smáey og Suðurey. Sömuleiðis var ég á frystitogaranum Snorra Sturlusyni sem Ísfélagið átti og gerði út.
Í veiðihléum, þegar hvorki var loðnu né síld að hafa, fékk skipstjórinn á Antaresi og Guðmundi skip til að leika sér á með troll á humarveiðum og tók okkur með sér sem vildum. Þess vegna er listinn minn yfir skip, sem ég var á hjá Ísfélaginu, lengri en ella.
Síðasti kafli sjómennskuferilsins var áratugur á Bergey, skipi Bergs-Hugins.
Mestallan tímann til sjós var ég kokkur. Einhvern tíma vantaði kokk og skipstjórinn sagði:
– Bassi, farðu og kokkaðu!
Ég hlýddi án þess að hafa nokkru sinni eldað mat. Þar með varð ég kokkur.
Heima hjá mér kem ég helst ekki nálægt matargerð. Frúin sér um það en fær mig oftast til liðs við sig til undirbúnings matar í veislum og á stórhátíðum.“
Fjölþjóðaflokkur saltar þorsk
„Og nú loka ég hringnum í saltfiski hjá Vinnslustöðinni. Umsvifin í framleiðslunni hafa aukist mjög á fáum árum. Við söltum fisk fyrir markaði í Portúgal og á Spáni. Vinnsluferlið er svipað en smekkur og tilfinning er mismunandi í þessum grannríkjum.
Portúgalir vilja stærri fisk en Spánverjar. Við sprautusöltum fiskinn handa Spánverjum og látum hann liggja í pækli áður en saltað er. Fiskur fyrir Portúgali er hins vegar saltaður á hefðbundinn hátt.
Starfsmenn í saltfiskvinnslunni eru jafnan á bilinu 55 til 60, fjölþjóðlegur og góður hópur. Við Íslendingarnir erum innan við tíu og með okkur starfar fólk frá Portúgal, Póllandi, Eystrasaltsríkjum, Slóveníu, Gana og víðar að.
Samstarfið gengur vel og okkur helst vel á mannskap. Úrvalsfólk upp til hópa, harðduglegt og ósérhlífið.
Nú er bara gaman og tíminn líður hratt á vertíðum. Vinna hefur aldrei drepið nokkurn mann.“
- Benoný Þórisson tók meðfylgjandi myndir af Bassa, þó ekki þá sem sýnir kappann að störfum í Ísfélaginu sumarið 1978!