Fara á efnissvæði
World Map Background Image
01 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Nýtt hús rís fyrir saltfisk- og uppsjávarvinnslu VSV

Framkvæmdir eru í þann veginn að hefjast á Vinnslustöðvarreitnum við nýtt tveggja hæða steinhús á tveimur hæðum, alls um 5.600 fermetra, sem í verður saltfiskvinnsla á neðri hæð og innvigtun uppsjávarafla á efri hæð.

Nýbyggingin verður L-laga, að hluta í gamla þróarrýminu sem snýr út að Hafnargötu í krikanum þar sem er nýlegur aðalinngangur VSV.

Willum Andersen, tæknilegur rekstrarstjóri Vinnslustöðvarinnar, segir að stefnt sé að því að saltfiskvinnsla hefjist í nýja húsinu á vetrarvertíð 2025:

„Við erum núna að hreinsa út úr húsunum og byrjum að rífa þökin einhvern næstu daga. Gamlir útveggir þróarinnar verða notaðir áfram en steypt nýtt milligólf og öðru breytt eins og þurfa þykir.

Þegar þar að kemur fer mikill tækjabúnaður inn á gólf efri hæðar. Þar verður innvigtun uppsjávarafla, flokkun og flökun sem uppfyllir allar kröfur í nýrri reglugerð þar að lútandi“.

Breytt áform

Á aðalfundi VSV 2022 var greint frá ákvörðun stjórnar um að rífa gömlu húsin þar sem starfrækt er bolfiskvinnsla og verbúðin sáluga á efri hæð en reisa í staðinn átta þúsund fermetra hús í áföngum svo unnt yrði að halda þar gangandi vinnslu á framkvæmdatímanum.

Á aðalfundi VSV 2023 var síðan tilkynnt að þessum áformum yrði yrði slegið á frest  „í varúðarskyni vegna alþjóðlegs óvissuástands í efnahagsmálum með tilheyrandi áhrifum á starfsemi fjármálastofnana erlendis og hérlendis.“

Áfram stendur sú ákvörðun að fresta um óákveðinn tíma að rífa bolfiskvinnsluhúsið en ný tíðindi eru hins vegar að ráðist verði í nýbyggingu þar sem loðnuþrærnar eru og saltfiskvinnslan færist þangað. Þar með verður auðveldara en ella að rífa gamla bolfiskhúsið og reisa nýtt í staðinn, hvenær svo sem að því kemur. 

Verktaki, hönnun & handbolti

T.ark arkitektar í Reykjavík sjá um hönnun nýja hússins.

Eykt ehf. verður aðalverktaki. Eykt er öflugt þekkingarfyrirtæki í byggingariðnaði og hefur annast stórframkvæmdir fyrir Vinnslustöðina undanfarin ár við nýja uppsjávarhúsið, tengibygginguna, mjölhúsið og frystigeymsluna á Eiði.

Eykt annast verkefni og framkvæmdi af ýmsu tagi um allt land, hvort heldur er nýbyggingar íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, skóla eða sjúkrahúsa, samgöngumannvirki og virkjanir. Eitt stærsta verkefni fyrirtækisins nú er nýr Landspítali í Reykjavík.

Gömlu loðnuþrærnar eru auðvitað hluti af langri sögu VSV en þær koma líka ögn við íþróttasögu Vestmannaeyja. Í bók, sem gefin var út árið 2016 í tilefni af sjötugsafmæli VSV, er haft eftir Ingibjörgu Finnbogadóttur, starfsmanni fyrirtækisins til áratuga:

„Ég æfði handbolta og keppti með Tý. Eitt sumarið var æfingarsvæðið opin hráefnisþró Fiskimjölsverksmiðjunnar og því einungis yfir götu að fara úr Vinnslustöðinni beint á æfingu. Þá styrktust upphandleggsvöðvarnir verulega og ég varð fyrir vikið býsna skothörð um þær mundir!“

07
08 3Jpg