Nýir sjóðarar auka afköst og tryggja rekstraröryggi
Nýr sjóðari og forsjóðari eru komnir í hús fiskimjölsverksmiðju Vinnslustöðvarinnar og nú er unnið að því að tengja þá við kerfi fyrirtækisins. Tækin eru engin smásmíði. Sjóðarinn er 35 tonn að þyngd en forsjóðarinn 7,5 tonn. Hvort stykki um sig er 13,5 metra langt.
Það þurfti því talsverðar tilfæringar við að koma græjunum inn í verksmiðjuhúsið og í nákvæmlega réttar stellingar innan dyra. Allt tókst það giftusamlega enda vaskir menn og vanir sem að verki komu, segir Unnar Hólm Ólafsson, verksmiðjustjóri VSV-bræðslu.
„Nýju tækin leysa af hólmi slitna og þreytta sjóðara frá 1986. Við byrjuðum í maímánuði á því að fjarlægja þá og undirbúa breytinguna. Við settum upp 24 metra langa stálbraut hátt yfir gólfi til að renna sjóðurunum inn í hús og svo þurfti að stilla þá af. Því er lokið og nú erum við að tengja og koma öllu í stand.
Sjóðarar eru fyrsti leggur hráefnis í framleiðsluferlinu. Rekstraröryggi verksmiðjunnar eykst mjög mikið við breytinguna og afkastagetan eykst sömuleiðis. Við erum að því leyti búnir undir það að stækka aðra hluta verksmiðjunnar þegar þar að kemur.“