Maginn fullur af burstaormum
Áhöfnin á Kap VE kvartar ekki undan aflabrögðunum þessa dagana. Þegar fréttaritari VSV náði tali af Kristgeiri Arnari Ólafssyni skipstjóra síðdegis í gær voru þeir að leggja í hann til Eyja. „Það er búin að vera fínasta veiði. Fínasta blanda. Einhver 20-25 tonn á dag," segir hann er hann var spurður um aflabrögðin upp á síðkastið.
Aðspurður um hvernig vertíðin sé samanborið við sama tíma og í fyrra segir Kristgeir að þetta sé miklu seinna á ferðinni núna í ár. „Það vantar alveg loðnuna."
Um 27 tonn í túr
Hvað hafið þið verið að fiska mikið í róðri? Svona 27 tonn. Þar af einhver sjö til átta tonn af ufsa.
Þú talar um að það vanti loðnuna. Hafið þið skoðað hvað fiskurinn er að éta? Já, hann er að éta burstaorma. Maginn fullur af því. Það er eitthvað sem við höfum ekki séð áður.
Spurður um hvar þeir hafi aðallega verið að veiðum undanfarið segir hann að þeir hafi verið á Hausnum á Selvogsbanka.

Kristgeir Arnar Ólafsson í brúnni á Kap.
Veðrið truflaði
„Við byrjuðum í Breiðafirði. Vorum þar nánast út febrúar. Í endann febrúar tókum einn túr við Eyjar. Það var engin veiði austan við Eyjar. Við erum núna að elta blettina fyrir vestan. T.d. á Klöppinni.
En talið barst aftur að loðnunni. Hann segir þau tíðindi að hann hafi verið að frétta af loðnu út af Víkinni í dag. „Munurinn er að togararnir hafa ekkert verið að fá. Það er aðeins að lagast. Þeir eru núna að fá um tonn á tímann."
Spurður um hvort veðrið hafi sett strik í veiðarnar hjá þeim segir hann að í kringum mánaðarmót hafi þeir verið frá veiðum í sex daga vegna veðurs.

Við komuna til Eyja í gær.
Fróðleikur um Burstaorma
Burstaormar eða Burstormar eru hryggleysingjar af fylkingu liðorma. Þeir eru eitt algengasta dýrið á sjávarbotni hér við land og getur verið mörg þúsund burstaormar á hvern fermetra. Af þeim eru til meira en 6 þúsund tegundir sem flestar eru minni en 10 millimetrar á lengd en þó eru til stærri og allt upp í risaskera sem getur orðið nokkrir tugir sentimetra á lengd. Heimild: Wikipedia.

Burstaormar.



Kristgeir að störfum í brúnni.