Maggi og Breki VE hálfnaðir í fertugasta togararalli Hafró
Togarinn Breki VE er væntanlegur til Eyja í kvöld með um 120 tonn af fiski sem veiddist í fyrri hluta togararalls Hafrannsóknastofnunar. Magnús Ríkarðsson skipstjóri segir að liðlega helmingur rallsins sé nú að baki og að löndun lokinni verði haldið til austurs í síðari hluta verkefnisins:
Okkur hefur gengið vel og veðrið ekki sett strik í reikninginn. Svæðið okkar er frá Snæfellsnesi austur um að Hvalbaksmiðum og við höfum togað á 86 af alls 154 rannsóknastöðvum sem okkur er ætlað að sinna.
Við hefjum seinni hálfleik á austursvæðinu að löndun lokinni og gerum ráð fyrir að enda rallið með annarri löndun í Eyjum.
Árlegu togararalli er ætlað að mæla stofna botnfisks á Íslandsmiðum. Þetta var fyrst gert fyrir fjórum áratugum og Breki VE tekur þátt í verkefninu, sjálfu afmælisralli Hafró, fjórða árið í röð.
Gullver NS, togari Síldarvinnslunnar, rallar líka í fjórða sinn og með Breka og Gullveri eru rannsóknarskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson í sama tilgangi á miðunum.
Sverrir Haraldsson, sviðstjóri botnfisksviðs Vinnslustöðvarinnar, segir það vissulega hafa áhrif á starfsemina að taka Breka úr öflunarrútínu hráefnis í þær vikur sem togararallið taki en frekar jákvæð áhrif en neikvæð þegar allt komi til alls:
Það hentar okkur mjög vel að fá svona verkefni og sinna því meðfram öðrum veiðum. Við skipuleggjum starfsemina bara með það í huga að togarinn sé upptekinn í öðru tímabundið.
Skipstjórnarmenn á Breka og við í landi líka öðlumst dýrmæta reynslu í rallinu og við höfum mikið gagn af því að kynnast hafrannsóknum á þennan hátt. Við erum sérlega ánægð með samstarfið við stjórnendur Hafró, vísindamennina og rannsóknafólkið sem tekur þátt í þessu og lærum mikið af því.
Því er við að bæta að skipstjórinn á Gullveri NS, Steinþór Hálfdanarson, er mikill reynslubolti í togararalli og hefur víst tekið þátt í slíkum verkefnum hátt í þrjátíu sinnum, oftast á togaranum Bjarti. Steinþór hætti á sjónum fyrir þremur mánuðum en á vef Síldarvinnslunnar kemur fram að hann hafi verið fenginn sérstaklega á ný í brúna á Gullveri af þessu tilefni:
Karlar eins og ég eru stundum fengnir í svona verkefni. Ég telst líklega hafa mjög góða rallreynslu!
Rannsóknasvæði Gullvers er frá Skjálfanda og austur um að Breiðdalsgrunni. Þá togar skipið líka á Þórsbanka, að færeysku lögsögunni.