Loðnufögnuðu á sprengidegi
„Við fengum þessi 250-260 tonn í tveimur köstum á Meðallandsbugt, úti fyrir Skaftárósum. Þetta þykir nú ekkert sérstakt á stað þar sem ætti að vera mokveiði. Lítil áta er í loðnunni og hrognahlutfallið um 15%,“ segir Jón Atli Gunnarsson, skipstjóri á Kap VE. Skipið kom til hafnar í Vestmannaeyjum seint í gærkvöld og löndun hófst kl. 7:30 í morgun.
Stundin er hátíðleg í sjálfu sér því loðna hefur ekki sést í Vestmannaeyjum frá því árið 2018 og því leyfa menn sér að brosa út í annað og jafnvel bæði. Nú er sprengidagur í Vestmannaeyjum í tvöföldum skilningi eða þannig.
Ísleifur VE og Huginn VE eru á miðunum en ekki liggur fyrir hvenær þeir koma til hafnar.
„Það sem við komum með er rétt til að koma verksmiðjunni í gang og ég geri ráð fyrir að við fáum að fara út aftur þegar löndun er lokið.
Loðnan liggur með ströndinni á löngum kafla. Það má vera að hún eigi eftir að þétta sig og þá verður auðveldara að eiga við veiðarnar. Auðvitað hefðum við vilja fá stærri kvóta en er á meðan er. Nú er um að gera að fá sem mest út úr því sem heimilt er að veiða. Það skiptir auðvitað máli fyrir þá sem vinna við að veiða loðnu og vinna úr henni og fyrir byggðarlagið.
Gleymum svo ekki ríkiskassanum sem fær alltaf sitt líka og ekki veitir af, heyrist manni.“
Benóný Þórisson, framleiðslustjóri uppsjávarsviðs VSV, tók myndirnar í uppsjávarvinnslunni í dag. Á þeirri efstu er Sindri Viðarsson sviðsstjóri.