Fara á efnissvæði
World Map Background Image
20230310 122002 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Kemur loðnan í veiðanlegum mæli inn í íslenska fiskveiðilögsögu eða lætur hún ekki sjá sig í ár svo nokkru nemi? 

Spurning sem brennur á fjölda fólks í mörgum íslenskum sjávarplássum og ekki síður á þeim sem ráðstafa því sem sem góð loðnuvertíð myndi skila sjóðum sveitarfélaga og sjálfu þjóðarbúinu.

Fylgst er líka með gangi mála utan landsteinanna og þá ekki hvað síst í Japan þar sem væntanlegir kaupendur og neytendur loðnu og loðnuafurða bíða spenntir.

Þaðan úr fjarlægu austrinu heyrist að of snemmt sé að örvænta því hegðun loðnunnar nú kunni frekar að skýrast af gangi himintungla en af meintum duttlungum hennar.

Fullt tungl þremur vikum síðar en í fyrra

Heimildarmaður himintunglakenningar er Yohei Kitayama sölustjóri Vinnslustöðvarinnar í Japan. Mun minna tilefni en þetta þarf til að slá á þráð til hans í Tókýó:

„Loðnuleysið við Ísland barst í tal við eftirvæntingarfullan viðskiptavin okkar á dögunum. Sá var áður til sjós svo áratugum skipti og sagði að sjómenn í Japan og annars staðar í Asíu stúderuðu alltaf stöðu tunglsins á hverjum tíma til að ráða í fiskgengd á miðum. Það væri nefnilega margsannað og staðfest í aldanna rás að fiskur hefði hægt um sig í sjónum og æti helst ekkert á fullu tungli en yrði aftur virkur með vaxandi nýju tungli. Þá færi hann að hreyfa sig og éta.

–Hvernig kemur þetta heim og saman við loðnuna á Íslandsmiðum? spurði þessi viðskiptavinur. Þegar við könnuðum málið kom í ljós að fyrir einu ári var fullt tungl 5. febrúar en í ár, 2024, verður tunglið ekki fullt fyrr en 24. febrúar eða með öðrum orðum þremur vikum síðar en á árinu 2023.

Þegar þetta lá fyrir mælti minn maður:

–Það styttist mjög í fullt tungl og síðan nýtt tungl. Öndum rólega enn um sinn og sjáum hvað gerist þegar nýja tunglið kviknar og dafnar. Skyldi nú ekki vera að loðnan hinkri eftir kvartilaskiptum og að ferli hennar sé einfaldlega nokkrum vikum síðar á ferðinni en í fyrra. Það væri alla vega í samræmi við reynslu og speki okkar sem stundum fiskveiðar í þessum heimshluta.“

Tunglár og páskahátíð

Þá vitum við það og ekki annað að gera en að bíða enn um stund og sjá hvað setur.

Vissulega væri saga til næsta bæjar ef tunglár yrðu tekin inn í fiskveiðiráðgjöfina!

Áhrifa tunglsins gætir reyndar meira í þjóðlífinu en margan grunar og hefur lengi gætt. Páskarnir eru til að mynda ekki alltaf á sama tíma, fjarri því. Páskadagur getur þannig runnið upp 22. mars í fyrsta lagi og 25. apríl í síðasta lagi. Í þeim efnum er miðað við tímatal gyðinga sem byggist á tunglári og því eru páskarnir ekki alltaf á sama tíma.

Kannski er eitthvað til í spekinni úr austri ...

Svo er það stóra, stóra spurningin:

Er einhver glóra í japönsku kenningunni um stöðu tunglsins og göngu loðnunnar í ljósi reynslu og vitneskju um loðnuleit og loðnuveiðar í ár og í fyrra?

Því svarar Binni í Vinnslustöðinni, Sigurgeir B. Kristgeirsson

 „Allir sem þekkja til sjómennsku vita að sjómenn tala um að fiskur gangi við breytingu strauma. Við nýtt tungl kviknar nýr straumur. Það sem ég hef aldrei heyrt áður er að dagatal sólar og tungls fari ekki saman en straumar tengjast gangi tungls en ekki sólar.

Þegar loðna gefur sig út af Austfjörðum í janúar og fram í febrúar er hrognafylling hennar 8-12% og þegar hún kemur upp að suðausturströndinni er hrognafyllingin yfirleitt á bilinu 12-14%.

Loðnan sem fannst á dögunum úti fyrir Austfjörðum var ekki talin í veiðanlegum mæli en eftirtekt vakti að hrognafyllingin var einungis um 8%. Loðnan átti því langt eftir í þroskaferlinu að þessu leyti. Hennar tími var ekki kominn. 

Kenning þessa viðskiptavinar okkar í Japan gengur því að þessu leyti upp, hvað svo sem síðar kann að gerast þegar japanska sjómannaspekin gengst undir próf reynslunnar á Íslandsmiðum á næstu dögum og vikum!“

Image