Landvinnsla í botnfiski komin af fullt
Nú er landvinnsla í botnfiski komin af stað aftur eftir sumarstopp hjá Vinnslustöðinni, Leo Seafood og í Hólmaskeri í Hafnarfirði. Vinnslan hefur farið vel af stað og ágætlega hefur gengið að halda uppi vinnslu.
Breki, Þórunn Sveinsdóttir og Drangavík voru að veiðum í vikunni, en Kap fer af stað seinni hluta september. Mest áhersla hefur verið á veiðar á karfa og ufsa, afli hefur verið ágætur hjá öllum skipum.
„Fórum eftir öllu austurlandinu í leit að ufsa”
Breki VE landaði í gærmorgun. Að sögn Ríkharðs Magnússonar, sem var með Breka í síðasta túr gekk túrinn mjög rólega. „Við vorum fyrir austan. Fórum eftir öllu austurlandinu að Berufjarðarálnum í leit að ufsa. Fengum eitthvað af honum en að auki vorum við með ýsu og djúpkarfa.” segir Ríkharð en túrinn var sá síðasti á yfirstandandi kvótaári. Breki hélt aftur til veiða á miðnætti.
„Nú er hægt að fara að veiða fyrir alvöru”
Óskar Þór Kristjánsson, skipstjóri á Þórunni Sveinsdóttur VE segir í samtali við Vinnslustöðvar-vefinn að túrinn hafi gengið ágætlega.
„Fyrst var farið austur að leita að ufsa. Við náðum í einhver 22 tonn af ufsa þar.” segir hann og bætir við að það hafi verið lítið að frétta í bakaleiðinni. „Við vorum hérna suður af Eyjum, það var lítið að frétta þar. Svo fórum við í kantinn á Eldeyjarbankann í leit af karfa, en það var lítið að sjá þar. Eftir Eldeyjarbankann fórum við á Fjöllin í leit af karfa og ufsa en þar var lítið að sjá. Því næst fórum við í Skerjadýpi og fengum þar djúpkarfa og í Grindavíkurdýpi náðum við 10 tonnum af karfa í 2 hölum. Við enduðum svo á Selvogsbanka en þar var lítil veiði.”
Spurður um lengd túrsins segir Óskar Þór að hann hafi verið í lengra lagi. „Við vorum í tæpa 8 sólarhringa. Þetta voru miklar keyrslur, um einn og hálfur sólarhringur í keyrslu.” Þórunn heldur aftur á miðin í kvöld. „Nú er hægt að fara að veiða fyrir alvöru, (ef Sverrir útgerðarstjóri leyfir okkur að veiða eitthvað af þorski.)” segir Óskar Þór og vísar til þess að nýtt kvótaár sé að hefjast nú um mánaðarmót.
Gullberg tekur síldartúr
Makrílveiðar hófust í byrjun júlí mánaðar. Það leit ágætlega út með þær til að byrja með og fékkst á tímabili ágætur afli í íslenskri lögsögu. Makrílveiðin hefur hins vegar verið mjög erfið nú í ágúst og ekkert hefur veiðst núna dögum saman, þrátt fyrir mikla leit.
Huginn og Sighvatur Bjarnason eru á miðunum að leita að makríl en Gullberg fer núna í að taka einn skammt af síld.
Staðan hjá VSV í makríl er þannig núna að búið er að veiða um 9.400 tonn og eru þá um 5.700 tonn eftir af kvótanum.