Krafa um tafarlausa fjölgun ferða Herjólfs
Hópurinn hittist fyrir helgina og þar var staðfest að „allar greinar sjávarútvegs í Vestmannaeyjum líða nú fyrir ónægar samgöngur.“ Fjölga verði ferðum Herjólfs strax úr sex í átta á sumaráætlun og bæta auk þess við fimm til sex næturferðum þegar siglt verður til Þorlákshafnar í haust.
- Erindið var sent ráðherrunum Bjarna Benediktssyni, Benedikt Jóhannessyni, Jóni Gunnarssyni, Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur og Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur. Undir það rita Elliði Vignisson bæjarstjóri og fulltrúar Vestmannaeyjahafnar, Vinnslustöðvarinnar, Löngu, Ísfélags Vestmannaeyja, Iðunnar Seafood, Gríms kokks, Leo Freshfish, Berg-Hugins, Godhaab Nöf og Fiskmarkaðs Vestmannaeyja.
Í bréfinu til ráðherranna segir meðal annars:
„Álagið á samgöngutækið er slíkt að þær fáu ferðir sem farnar eru á hverjum degi duga hvergi til að anna ferðaþjónustu, hvað þá sjávarútvegi eða almennum íbúum. Á meðan tapast tækifæri, hráefni skemmist og fyrirtæki víða um land verða fyrir miklum skaða þar sem illa gengur að vinna verðmæti úr því sjávarfangi sem flytja þarf með Herjólfi.
Fjölgun ferða með Herjólfi um eina á dag í sumaráætlun er góðra gjalda verð og hraustlegt framtak þeirra sem að komu en dugar þó hvergi til að mæta þörfinni eins og hún er. Með bréfi þessu er gerð sú krafa að ferðum Herjólfs í sumaráætlun verði tafarlaust fjölgað í 8 á hverjum sólarhring alla vikuna, eins og svigrúm er til. Einungis þannig teljum við okkur geta skapað samfélaginu þau miklu verðmæti sem við höfum burði til.
Undirritaðir minna einnig á mikilvægi þess að þegar vetraráætlun í Þorlákshöfn tekur við mun vandinn enn aukast verði ekki gripið til aðgerða. Hafa þarf hugfast að sjávarútvegsráðherra hefur nýverið tekið ákvörðun um aukningu á fjölmörgum nytjastofnum. Eðlilega veldur það auknu álagi á flutningskerfið og mikilvægt að fyrirtæki verði ekki hindruð í að nýta sér þau tækifæri sem í því eru fólgin.“
„Vestmannaeyjar eru ein stærsta verstöð á landinu og vinsæll áfangastaður ferðamanna. Samfélagið hér hefur alla burði til að halda áfram að dafna og leggja samfélaginu öllu til verðmæti til samneyslu. Það er þó háð því að ekki verði látið undir hælinn leggjast að tryggja þá undirstöðu sem fólgin er í samgöngum.“