Kiddi Týr setti upp heimastjórnstöð fyrir bræðsluna í kóvíd-einangrun
„Við höfum unnið á tvískiptum vöktum allan sólarhringinn frá því 10. janúar og ég reikna með að á loðnuvertíðinni allri gangi bræðslan í um 100 sólarhringa. Þetta er alvöru vertíð og mikill atgangur hjá okkur eins og vera ber.“
Magnús Kristleifur Magnússon, annar tveggja vaktformanna í stjórnstöð Fiskimjölsverksmiðju VSV, var kominn á sinn stað að kvöldi 27. janúar. Framundan tólf tíma næturvakt við að búa til verðmæta útflutningsvöru úr loðnunni sem skipin færa að landi af miðunum hvert á eftir öðru.
Best að nefna strax að viðmælandinn er Kiddi Týr. Varla nokkur maður i Eyjum kannast við þennan Magnús Kristleif en nafnið er vissulega til í kirkjubókum Vestmannaeyja, hjá skattinum, Þjóðskrá og í kjörskrám þá sjaldan kosið er. Annars ekki.
„Við vorum þrír Eyjapeyjar sem spiluðum fótbolta saman á sínum tíma og allir kallaðir Kiddi. Þá var farið að aðgreina tvo okkar eftir íþróttafélögunum. Kiddi Gogga varð Kiddi Þór enda Þórari og ég varð Kiddi Týr.
Ég er fæddur inn í Tý, er og verð alltaf Týrari, afskaplega ánægður með að bera heiti uppeldisfélagsins. Veit ekki til þess að nokkur annar hafi hlotið þá upphefð að vera nefndur eftir Tý.“
Yfirstandandi loðnuvertíð er sú tuttugasta í röðinni sem Kiddi Týr stendur vaktina í fiskimjölsverksmiðjunni. Á Fésbók titlar hann sig einfaldlega „bræðslukall hjá VSV“.
Engum blöðum er um að fletta að slíkir reynsluboltar í stjórnstöð mjölverksmiðju eru ómissandi eða svo gott sem. Að sjá á bak Kidda Tý í kóvíd-einangrun jafnast fyllilega á við þær raunir Gumma landsliðsþjálfara að hafa Aron Pálma og Björgvin Pál innilokaða á hótelherbergi þegar þeim er ætlað að spila handbolta og koma liði sínu á verðlaunapall.
Á Evrópumóti í handbolta hvarflar ekki að neinum að leysa vandann með því að flytja bara leikina inn á einangrunarhótelið. Þegar hins vegar Kiddi Týr varð að einangra sig heima hjá sér vegna kóvíd-smits í fjölskyldunni mætti Unnar Hólm verksmiðjustjóri á dyraþrepið í kjallaranum með stjórnstöð bræðslunnar í fanginu, eða svo gott sem, og afhenti vaktformanninum.
Gummi þjálfari gæti margt lært af Eyjamönnum á örlagastundu, ekki síst það að ef Múhameð kemst ekki til fjallsins skríður fjallið einfaldlega til Múhameðs.
„Einn sona minna greindist á dögunum með kóvíd. Ég flutti snarlega niður í kjallara og innsiglaði mig þar til að forðast pestina. Verksmiðjustjórinn kom þá með skjá og fleira tölvudót til að ég gæti tengst stjórnstöð bræðslunnar og verið í sambandi við strákana á vaktinni heima hjá mér. Það gekk ágætlega að fylgjast með öllu og fjarstýra eftir atvikum.
Ekkert stórvægilegt gerðist og allir glaðir. Margt er auðvitað ómögulegt að gera með tölvutækninni, til dæmis að hreinsa úr tækjum. Þá hljóp snillingurinn Óskar Valtýs í skarðið, stóð eina vakt í bræðslunni og hreinsaði tækin. Hann vann hér lengur en elstu menn muna, er kominn á eftirlaun en mætir til okkar í kaffi og er eins og grár köttur í kringum okkur eins og vera ber.
Þegar ég loksins losnaði úr einangrun, og komst aftur til vinnu í verksmiðjunni, greindist eiginkonan [Ásta Björk Guðnadóttir aðstoðarleikskólastjóri] með kóvíd. Nú er hún einangruð á efri hæðinni en ég bý áfram í kjallaranum.
Vonandi kemst ég „heim“ í næstu viku, það er að segja að hitta mitt fólk á efri hæðinni. Ég skal alveg viðurkenna að þetta er ansi sérstakur tími!“
Myndir úr bræðslunni: Unnar Hólm.
Gummi Sveins, Kiddi Týr, Olgeir og Geir Reynis.
Kiddi Týr kannar stöðuna á soðkjarnatækjunum.
Kiddi Týr og Ásta Björk með Magnús, Kristófer Dag og Þorvald Guðna. Rósa, yngsta barnið, er ekki fædd þarna!