Kaup VSV á Grupeixe í Portúgal styrkja saltfiskvinnsluna í Eyjum
Stjórn og framkvæmdaráð Vinnslustöðvarinnar hf. eru nýkomin úr heimsókn í Grupeixe í Portúgal, framleiðslu-, dreifingar- og sölufyrirtæki fyrir saltfisk sem Vinnslustöðin keypti fyrr á árinu. Fyrirtækið er í borginni Aveiro í norðurhluta Portúgals. Það er meðalstórt á sínu sviði þar í landi, veltir jafnvirði um 1,8 milljörðum króna á ári og seldi um 2.300 tonn af afurðum árið 2017. Starfsmenn eru um 30 talsins.
Engar breytingar hafa orðið á starfsemi saltfiskvinnslu í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum vegna kaupanna á Grupeixe aðrar en þær að framleiðsla hefur aukist verulega. Ljóst er því að kaupin munu styrkja og treysta salfiskvinnslu Vinnslustöðvarinnar enn frekar í sessi.
Vinnslustöðin sýnir þannig í verki að hún er framsækið og öflugt sjávarútvegsfyrirtæki með höfuðstöðvar sínar í Vestmannaeyjum og leggur sig stöðugt eftir því að styrkja heimabyggðina og nærsamfélagið enn frekar.
Ferðin var afar fróðleg og skemmtileg og ljóst að fjölmörg tækifæri eru til sóknar og aukinnar þekkingar á alþjóðavísu, sem um leið eflir starfsemina heima og heiman.
Portúgalinn Nuno Araújo stýrir Grupeixe. Hann hefur starfað sem sölustjóri VSV í Portúgal undanfarin ár og skilað þar afar góðu verki. Hægri hönd Nuno er José Gandra sem fyrst kom til Vestmannaeyja frá Portúgal árið 2015, þá til að starfa í fiskvinnslu félagsins. Gandra er kennaramenntaður, brennur af áhuga fyrir því að auka gæði saltfisks frá Íslandi og hefur lagt sig mjög fram við að kynna sér framleiðsluvöru Vinnslustöðvarinnar og kanna hvernig auka megi verðmæti hennar. Kaup Vinnslustöðvarinnar á Grupeixe er stór liður í að efla framleiðslu og útflutning á saltfiski frá Íslandi.
Vinnslustöðin þakkar fyrir góðar móttökur í Portúgal og væntir mikils af komandi samstarfi við starfsfólk Grupeixe.