Kap með fyrsta loðnufarm ársins til VSV
10/01/22
Kap kom til Vestmannaeyja í nótt með fyrsta loðnufarminn á nýju ári. Ísleifur fylgdi í kjölfarið og Huginn er á leið heim líka af miðunum fyrir norðan og austan land.
Vinnslustöðvarskipin þrjú færa alls að landi liðlega fimm þúsund tonn til vinnslu í fiskimjölsverksmiðjunni.
„Ætla má að lokið verði við að landa úr öllum skipum aðra nótt og mikið verður því um að vera hjá Unnari Hólm og hans liði í bræðslunni næstu sólarhringa,“ segir Sindri Viðarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs VSV.
„Loðnuvertíðin er sannarlega hafin og gott er það. Samt er ekki mikill kraftur í veiðunum enn sem komið er, frekar hægt að tala um kropp.“
- Myndin sem fylgir fréttinni er úr einstæðri upptöku Erlendar Bogasonar frá því í mars 2021 þegar hann kafaði bókstaflega niður í loðnutorfu á Faxaflóa og myndaði það sem fyrir augu bar - sem var ekki lítið! Erlendur er fyrstur manna sem slíkt hefur gert í veröldinni að því best er vitað.