Kap heim af síldarmiðum með hálfþrítugan skipstjóra í brúnni
Halldór Friðrik Alfreðsson fór í fyrsta sinn á sjó með föður sínu átta ára gamall og og var mikið að snöfla með honum niðri í bát sem smápjakkur. Pabbinn var yfirvélstjóri á Gullbergi VE frá 1997 til 2007.
Ellefu ára var Halldór Friðrik í veiðiferð með afa sínum og alnafna, þá starfsmanni Hvals hf. Þeir færðu hvali á land í Hvalfirði.
Síðan þá hefur margt á daga drengs drifið. Núna er hann yfirstýrimaður á Kap VE og einmitt í dag (9. september) á leið heim til Vestmannaeyja með 750 tonn af síld úr fyrsta túrnum sínum sem skipstjóri.
Sú fiskisaga er í sjálfu sér í frásögur færandi en miklu frekar þegar henni fylgir að Halldór Friðrik er einungis 25 ára gamall! Hann leysti Valdimar Gest Hafsteinsson skipstjóra á Kap af með glæsibrag.
„Einhver kynni að ætla að ég hefði átt að feta í fótspor föður míns og gerast vélstjóri en ég valdi aðra leið. Hvorugur okkar feðga telur samt að þar með hafi ég svikið málstað vélstjóranna ...
Ferilinn byrjaði af alvöru fyrir tíu árum. Þá var ég fimmtán ára og vann í humri hjá Vinnslustöðinni og fékk skipsrúm sem háseti á Gandí VE. Aldrei kom annað til álita en sjómennskan.
Mér hefur gengið ágætlega. Það má fyrst og fremst þakka því að ég hef verið heppinn með lærifeður og fyrirmyndir í brúnni. Þar get ég nefnt Jón Atla, fyrrverandi skipstjóra á Kap og núverandi skipstjóra á Gullbergi, Valdimar núverandi skipstjóra á Kap og svo réri ég með Magnúsi sem nú er skipstjóri á Ísleifi. Fleiri flotta karla gæti ég nefnt sem ég hef lært mikið af.
Svo má bæta við arfi forfeðranna. Pabbi og afi kenndu mér auðvitað margt sem kemur að gagni í lífi og starfi yfirleitt.“
Svo stiklað sé enn frekar á stóru um fortíð Halldórs Friðriks á ferlinum má nefna að hann leysti af sem háseti á „gamla“ Gullbergi frá 2014 til 2016 og fór að leysa af á hinum og þessum bátum líkt og gengur og gengur til að byrja með. Eitt árið var hann til að mynda á Maggý á snurvoð.
Haustið 2016 urðu kaflaskipti þegar hann fékk afleysingar á Kap og hefur haldið sig við uppsjávarveiðar síðan þá. Kap var í raun fyrsta fasta plássið hans.
Líf á Halldór Friðrik utan sjómennskunnar en það snýst fyrst og fremst um fjölskylduna, kærustuna Söndru Dís og dóttur þeirra, Sóldísi.
Ferðalög og útivera eru líka ofarlega á óskalistanum.
Halldór Friðrik slappar annars af og nýtur lífsins úti á sjó við Eyjar á trillunni sinni, Þorsteini VE-18, sérstaklega þegar vel viðrar. Trillan sú heitir reyndar eftir afa og alnafna eiganda síns, fyrrverandi skipstjóra úr Keflavík. Afinn hefur nokkrum sinnum farið á sjó með sonarsyninum.
Alfreð, faðir Þorsteins Friðriks, hefur verið duglegur að róa með syni sínum og þeim feðgum bregður einmitt fyrir á mynd af Þorsteini VE sem fylgir hér með.
Sjómenn eru gjarnan hjátrúarfullir, á ýmsan hátt og í mismiklum mæli. Það vel þekkt og nægir að nefna Sverri Gunnlaugsson, fyrrverandi skipstjóra á Gullbergi. Hann rakti í viðtali í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja 2022 langan lista af því sem hann mátti gera eða ekki gera og nefndi sérstök föt sem hann klæddist til sjós til að betur gengi en ella.
Lítill fugl hvíslaði að Halldór Friðrik væri meðal hinna hjátrúarfullu, sem hann viðurkenndi en með semingi þó. Hann kvaðst vilja halda því hjá sér hvað í sinni hjátrúnni fælist en tók skýrt fram að hann kæmist hvergi nálægt Sverri á Gullbergi í þeim efnum.
Fyrr má nú líka aldeilis vera.