Jólaveisla VSV - „besti dagur lífsins“!
Fjölmennt var í jólakaffi Vinnslustöðvarinnar í Höllinni í gær, mikil stemning og gleði, enda féllu þessar hefðbundnu samkomur niður 2020 og 2021 af faraldsfræðilegum ástæðum. Það var sérlega ánægjulegt að taka upp þráðinn á nýjan leik.
Fimm tugir barna mættu og einn guttinn sagði við móður sína á leið úr húsi að þetta væri besti dagurinn sem hann hefði upplifað!
Bragð er að þá barnið finnur, ekki síst krakkar kunna vel að meta þá breytingu að lífið sé komið í mannlegar skorður á ný eftir alls kyns fjötra sem COVID lagði á mannkynið - þar á meðal Eyjamenn. Og það sýndi sig að meira að samkomutakmarkanir hafa verið afnumdar í jólasveinalandinu. Fulltrúi þess mætti alhress og fjórsprautaður.
Venju samkvæmt voru þeir starfsmenn heiðraðir sem látið hafa af störfum vegna aldurs. Sömuleiðis þeir sem náðu þeim stóráföngum í lífinu að verða fimmtugir, sextugir eða sjötugir. Óvenju stór hópur steig á svið af þessu tilefni og vantaði samt um helming þeirra sem áttu heima í heiðurshópnum. Joao Remelhe gat til dæmis ekki mætt en Binni framkvæmdastjóri afhenti honum í staðinn afmælisgjöf í kaffitíma í dag.
Séra Viðar Stefánsson, prestur í Landakirkju, ávarpaði samkomuna og Eyjastelpurnar Sara og Una sungu fyrir gesti.
Liðsmenn Starfsmannafélags Vinnslustöðvarinnar sáu um að baka brauð og kökur til að leggja á veisluborðið sem undan þunga kræsinganna svignaði. Gestir voru svo við brottför leystir út með gjöfum frá Vinnslustöðinni.
Fyrsti sunnudagur í aðventu var til sérstakrar lukku í Höllinni.