Fara á efnissvæði
World Map Background Image
Screenshot 2024 01 15 At 15.52.05 Til baka

9.55°C

ESE

11.32 m/s

Þegar starfsmenn Fiskimjölsverksmiðju Vinnslustöðvarinnar komu til vinnu núna að morgni föstudags 12. mars gátu þeir ekki reiknað með að ganga að nýuppáhelltu kaffi vísu eins og venjulega. Uppáhellarinn kvaddi nefnilega vinnustaðinn sinna til áratuga í gærkvöld og snýr sér að golfi og fleiru í fullu eftirlaunastarfi.

Óskar Valtýsson hefur jafnan farið á kreik heima um sexleytið á morgnana og mætt til vinnu í bræðslunni kl. 6:45. Fyrsta verkefni dagsins var að sveifa kaffivélina í gang.

í viðtali hér á þessum vettvangi í nóvember 2019 var haft eftir Óskari um yfirvofandi kaflaskil í lífinu:

Ég ætla að þrauka til sunnudags 7. mars 2021. Þá verð ég sjötugur og hætti á toppnum. Skráðu hjá þér dagsetninguna svo höfðingjarnir í Vinnslustöðinni geti byrjað að undirbúa kveðjuveisluna!

Þetta stóðst svona hér um bil. Óskar varð vissulega sjötugur á sunnudaginn var en hann hætti ekki fyrr en að kvöldi fimmtudags 11. mars. Munaði reyndar litlu en það stendur ekki á skýringum hjá hinum nýsjötuga höfðingja að kvöldi síðasta vinnudags:

„Ég rúnnaði veruleikann aðeins af miðað við fyrri yfirlýsingar. Stjórnmálamennirnir gera það stöðugt og eru miklu grófari en ég í þeim efnum. Ég lofaði Unnari, stjórnanda í bræðslunni, því að klára loðnuvertíðina áður en ég hætti. Loðnuvertíðin í ár var reyndar sú stysta sem ég hef upplifað og varði frá föstudegi til fimmtudags en ég stóð við mitt.

Auðvitað verður undarlegt að vakna í fyrramálið og fara ekki í vinnu. Það segir sig sjálft. Lífið heldur samt alltaf áfram, það máttu bóka. Hér eftir verð ég sjálfsagt oftar á golfvellinum en ella enda skráði ég mig í golfklúbbinn og er betri en enginn í golfi.

Svo á ég eftir að halda upp á sjötugsafmælið. Það var ekki mögulegt um síðustu helgi. Tengdapabbi minn (Þórður Magnússon á Skansinum) veiktist og dó á mánudaginn var. Hann hefði orðið 88 ára. Blessuð sé minning hans.

Við lifum öll alltaf lengur og lengur. Það er eins og gert sé beinlínis í því að halda okkur lifandi sem lengst. Mér leið reyndar eins og ég væri að deyja í síðasta kaffitímanum mínum í bræðslunni. Þeir komu allir topparnir í Vinnslustöðinni og þorðu ekki annað eftir að ég manaði þá til kveðjuveislu í viðtalinu forðum. Þeir töluðu fallega til mín. Það eru allir góðir þegar þeir eru farnir og ég fékk minningarorðin um mig fyrir fram!“

Prinspóló og orðuveitingar

Menn gerðu sér vissulega dagamun í síðdegiskaffi bræðslunnar og fengu sér Pepsí og Prinspóló. Það átti vel við. Fyrr í vikunni rifjaði Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri upp á Fésbók sælar minningarstundir í barnaskóla á Hólum í Hjaltadal og annar nemandi minntist þess í framhaldinu að þegar Rósberg G. Snædal, kennari og skáld, vildi verðlauna nemendur sína fyrir góða frammistöðu gaf hann þeim Prinspóló. Pólskt súkkulaðikex jafngilti fálkaorðu fyrir börn í Skagafirði.

Nú hefur Óskar Valtýs fengið Prinspóló og Guðni Th. ætti að bæta um betur og hengja fálkann á jakkaboðung þeirra Óla Venna þegar næst verður blásið til orðuveislu á Bessastöðum. Ólafur Sigurvinsson, jafnaldri, vinnufélagi í bræðslunni og fóstbróðir Óskars til lífstíðar, verður nefnilega sjötugur 8. apríl og hættir þá störfum. Orðuveitingin yrði söguleg því aldrei í Íslandssögunni hefur yfirlýstur jólasveinn fengið fálkaorðu, hvað þá tveir í einu.

Óskar Valtýs og Óli Venna voru á sínum tíma í hópi sjö járnsmiða í bræðslunni. Svo fækkaði í hópnum og undanfarna tvo áratugi hafa þeir verið tveir félagarnir og haldið til á þeim stað sem kallast jólasveinaverkstæðið í daglegu tali.

Nú er annar sveinkinn hættur og hinn á förum. Það eru tíðindi og mörg mun ómerkilegri hafa verið sögð um dagana í Vestmannaeyjum.

„Við Óli eru jafnaldra jólasveinar í sérflokki, ég einum mánuði eldri. Við höfum verið félagar alla tíð frá æskuárum, vorum saman í fótboltanum, í ungmennalandsliði Íslands, förum í saman í egg og svo er það samveran í bræðslunni allan þennan tíma. Það er snilld að vinna með þessum dreng.

Menn koma og fara, líka jólasveinar. Maður kemur í manns stað. Vinnslustöðinni hlýtur að takast að manna jólasveinaverkstæðið áfram en óvíst er að nýjum mönnum takist nokkru sinni að fara í fötin okkar Óla.“

Liðið fór á taugum

Nú er komið að viðkvæmasta hluta samtalsins og það er að nefna ummæli Óskars í viðtalinu frá 2019 um ÍBV og fótboltann. Skrifað stendur þar og haft eftir Valtýssyni:

Ég er afskaplega sáttur við lífið og tilveruna. Lífið er ekki bara beint strik en mestu máli skiptir að hafa hugarfarið í lagi. Þegar ég hætti að vinna verður ÍBV-liðið í karlafótboltanum komið aftur upp í úrvalsdeild. Sannaðu til.

Ekki gekk þetta eftir en Óskar þarf ekki að hugsa sig lengi um til að bregðast við.

„Ég er greinilega ekki spámaður í eigin föðurlandi! Við áttum gott fótboltalið í fyrra og það var á góðri siglingu en fór á taugum. Ef andlega hliðin er ekki í lagi fer ekki vel. Það á við um fótbolta og allt annað í lífinu. Hugarfarið er stór partur af því að ná árangri í hverju sem er. Vonandi gengur ÍBV betur í sumar en róðurinn verður ekki auðveldur.“

– Var ekki nefnt við þig að vinna fram á haust og freista þess að liðið færi upp í úrvalsdeild svo þú gætir staðið fyllilega við fyrri yfirlýsingu um starfslok?

„Nei, sem betur fer hafði þetta gleymst. Það hefði nú verið ljóta vesenið ef menn hefðu rifjað upp ummælin og viljað að ég frestaði því að hætta upp á von og óvon í fótbolta!“

Skrítin tilhugsun

„Síðasta verkefnið mitt í vinnunni var að loka hráefnisgeymi við höfnina í skítakulda. Ég hefði nú frekar viljað dunda síðustu stundirnar í hlýjunni á jólasveinaverkstæðinu en ekki var nú beinlínis valið neitt þægindadjobb handa manni í blárestina. Það eru ekki alltaf jólin.

Tilveran verður ábyggilega undarleg næstu vikur. Á þessari stundu veit ég hreinlega ekki hvort ég sakna vinnunnar eða hlakka til að vera hættur. Það hefur bara ekki reynt á nýjar aðstæður.

Ekki skal ég samt neita því að skrítin er sú tilhugsun að mæta ekki framar til að hella upp á í vinnunni korter fyrir sjö að morgni dags. Mjög skrítin.“

Efstu tvær myndirnar eru frá Pepsí- og Prinspólóveislunni í bræðslunni - síðasta kaffitíma Óskars í vinnunni. Með honum eru Unnar Hólm verksmiðjustjóri og Binni framkvæmdastjóri VSV. Þar fyrir neðan eru þeir félagar Óskar og Óli Venna og í lokin Óskar í sviðaveislu í bræðslunni 2017.

1 Kvaddir
2 Mynd3
3 20200514 152655 1
4 Img 4996